Flautukvintettar eftir Krommer og Kuhlau. Martial Nardeau flauta, Greta Guðnadóttir fiðla, Guðmundur Kristmundsson & Þórunn Ósk Marínósdóttir víóla, Hrafnkell Orri Egilsson selló. Laugardaginn 15. febrúar kl. 16.

VEÐURHAMUR laugardagsins gerði mörgum skráveifu, þ.ám. undirrituðum, og olli trúlega mestu um fámennið í áheyrendasætum þegar aðeins 18 manns urðu vitni að frumflutningi flautukvintetta Krommers og Kuhlaus á Íslandi. Væri full ástæða til að endurtaka tónleikana, því tónlistin var í einu orði sagt bráðskemmtileg og hafði sér til ágætis flest annað en að vera þekkt hér um slóðir.

Eftir að stórsnillingshugtakið var sett á oddinn á 19. öld hurfu mörg tónskáld að ósekju í skuggann á Haydn, Mozart, Schubert og Beethoven, jafnvel þótt virt væru af samtíð sinni, og féllu síðan í gleymsku. Hvað snemmrómantíkina varðar olli stallsetning eftirlifenda á Beethoven ákveðinni meinloku: annaðhvort þóttu önnur tónskáld of lík honum og voru þá vænd um stælingu - eða þau þóttu of ólík, og komu því ekki til greina!

Fyrirlitningin á "smámeisturum" fram eftir blómaskeiði darwinisma og þjóðernishyggju var botnlaus og útilokaði lengi vel ekki aðeins afbragðs tónlist að ósekju, heldur líka þá skilningsaukandi og örvandi viðmiðun sem hún veitti. En sem betur fer hafa hljómlistarmenn síðari ára í vaxandi mæli farið að sinna þessum hulduhljóðkrásum. Í nóvember mátti t.d. heyra frábæran píanókvintett eftir Hummel, engu lakari en Silungakvintett Schuberts, og verkin tvö umræddan laugardag voru ekki síður ánægjuaukandi. Bæði skipuð sömu ljúfu áhöfn flautu og strengjakvartetts með tvær víólur í miðju, sem gefur aðeins dimmri samhljóm og mýkri en venjulegur tveggja fiðlna kvartett.

Eftir Tékkann Franz Krommer (1759-1831) var leikinn Kvintett nr. 7 [í D?] Op. 104, fjórþætt verk á vínarklassískum grunni, gætt mózörzkum þokka (gott ef eimdi ekki svolítið eftir af Töfraflautuforleiknum í gegnfærslu lokaþáttar!) og haydnskri kerskni; bráðvel skrifað verk og skemmtilegt áheyrnar. Hópurinn lék vel og samtaka; að vísu framan af með sérkennilegum votti af "HIP"-styrkreigingum, en úr því dró blessunarlega þegar frá leið, enda umdeilanlegt í ekki eldri tónlist.

Friedrich Kuhlau (1786-1832) frá Hannover féll aldrei í sama gleymskunnar dá og Krommer. Til þess var hann of stór fiskur í litlum polli. Hann bjó nefnilega síðari helming ævinnar í Kaupmannahöfn, þar sem hann samdi m.a. þjóðaróperuna Álfhól og ógrynni af flaututónlist. Hann heimsótti Beethoven 1825, er sendi honum keðjusöng í kveðjuskyni, "Kühl, nicht lau" (Svalur, ekki volgur), og hafði á honum miklar mætur.

Samt kom manni á óvart hve mikið var spunnið í Kvintett Kuhlaus nr. 3 í A Op. 51. E.t.v. mest í innþættina, þ.e. "norrænu rómönzuna" (III.) - og sérstaklega beethovenska "norna"-scherzóið (II.), rakið crème de la crème og sneisafullt af gáskafullu hugviti. Tónmálið var annars furðuþróað fyrir sinn tíma og slagaði upp í þroskaverk Schumanns og Brahms. Leikurinn var afspyrnugóður, ávallt á sannfærandi hraða og spilagleðin nánast áþreifanleg. Aðeins mætti bæta einu piparkorni í pylsuenda til mótvægis, að leiðinda plebbaháttur var að enskulapi tónleikaskrárritara - "Brunswick" (í stað Braunschweig) og "Moravia" (Mähren) í stað góðfrónskunnar Mæri.

Ríkarður Ö. Pálsson

Höf.: Ríkarður Ö. Pálsson