Karlarnir: Matthew, Butch, Alex, Ryan, Dave, Rob, Roger og Daniel.
Karlarnir: Matthew, Butch, Alex, Ryan, Dave, Rob, Roger og Daniel.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FÓLK virðist vera reiðubúið að leggja ýmislegt á sig fyrir peninga og sést það best í þáttaröðinni sem hefur göngu sína á SkjáEinum í dag, en þá hefjast sýningar á 6. þáttaröðinni af Survivor - The Amazon.

FÓLK virðist vera reiðubúið að leggja ýmislegt á sig fyrir peninga og sést það best í þáttaröðinni sem hefur göngu sína á SkjáEinum í dag, en þá hefjast sýningar á 6. þáttaröðinni af Survivor - The Amazon. Að þessu sinni er 16 fífldjörfum einstaklingum att saman í afskekktustu og villtustu myrkviðum Amasón frumskógarins. Í byrjun þessarar þáttaraðar verður keppendum skipt eftir kyni. Kvenliðið heitir Jaburu eftir fugli sem hefur Amasón að heimkynnum sínum, á meðan karlliðið er nefnt Tambaqui eftir fiski.

Liðin hafa aðeins með sér brýnustu áhöld og þurfa að beita eigin útsjónarsemi og dugnaði til að afla sér matar og búa sér skjól. Í skóginum leynast einnig ótal hættur, allskyns baneitruð dýr og stórhættulegar plöntur sem varast þarf. Ekki bætir úr skák að veður eru válynd, og regntímabilið að skella á.

Lögfræðingur, námsráðgjafi og fyrirsæta

Keppendurnir spanna alla þjóðfélagshópa og eru á öllum aldri og af öllum kynþáttum. Meðal keppenda eru fimmtugur skólastjóri, endurskoðandi á þrítugsaldri, ungur eldflaugaverkfræðingur, fyrirsæta, hönnuður og tölvunarfræðingur.

Liðin tvö etja kappi í þrautum, á milli þess sem þau afla sér matar og drykkjar og verjast náttúruöflunum. Það lið sem tapar þraut þarf að kjósa einn af liðsmönnum sínum úr keppninni á þartilgerðum ættbálkafundum, en sigurliðið getur átt von á glaðningi. Það er til mikils að vinna, og sýnir reynslan að einskis er svifist til að standa einn eftir, og vinna þar með eina milljón bandaríkjadala, eða sem svarar til tæpra 80 milljóna króna.

Stjórnandi þáttanna er að vanda Jeff Probst, en hann gætir þess að farið sé eftir reglum keppninnar í hvívetna. Það eru ýmsar reglur sem keppendur verða að fylgja: Þeir mega til dæmis ekki sammælast um að deila fyrstu verðlaunum á milli sín, brjóta lög, eiga í samskiptum við starfslið þáttanna eða skrópa á ættbálkafundum. Ekki má heldur skaða lífríki frumskógarins umfram það að veiða til matar og búa sér skjól. Loks er stranglega bannað að hegða sér illa, til dæmis með því að valda öðrum matareitrun með slæmri eldamennsku eða beita aðra í hópnum ofbeldi.

Í 39 daga verða strandaglóparnir 16 að þrauka, uns einn stendur eftir. Hver þáttur er afrakstur þriggja daga veru í frumskógunum, og í hverjum þætti fækkar um einn. Þannig þurfa keppendur að vinna saman til að lifa af, en jafnframt brugga hver öðrum launráð og kljást innbyrðis. Til að flækja ráðabruggið enn frekar er vinningshafinn valinn af sérstökum dómstóli sem er skipaður þeim sjö síðustu sem voru úr leik.