Benóný Ásgrímsson
Benóný Ásgrímsson
"AÐ okkar mati var það á mörkunum hvort þetta væri framkvæmanlegt, en við hefðum aldrei farið af stað nema við teldum að sá sem ætti í hlut væri í yfirvofandi lífsháska," segir Benóný Ásgrímsson, flugstjóri þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, en...

"AÐ okkar mati var það á mörkunum hvort þetta væri framkvæmanlegt, en við hefðum aldrei farið af stað nema við teldum að sá sem ætti í hlut væri í yfirvofandi lífsháska," segir Benóný Ásgrímsson, flugstjóri þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, en í gær bjargaði áhöfnin Andrínu G. Erlingsdóttur, rúmlega þrítugri konu, sem sat föst á vélsleða úti í miðju vatni, norðan við Landmannalaugar. Búið var að spá ofsaveðri og var mjög hvasst þegar þyrlan fór af stað frá Reykjavík laust eftir hádegi í gær.

"Það lá fyrir að það var búið að gefa út viðvörun frá Veðurstofunni um að mikil ókyrrð væri í lofti á Suður- og Vesturlandi og jafnframt var spáin mjög slæm. Við höfðum aftur á móti fengið upplýsingar um að sleðinn væri alltaf að síga neðar og neðar í vatnið og björgunarsveitarmenn sem voru á leiðinni áttu 10 km eftir ófarna. Þeir voru fastir í krapa og leist þannig á að þeir kæmust ekki fyrr en eftir einhverja klukkutíma þarna inn eftir." Benóný segist hafa metið það svo að Andrína hafi verið í yfirvofandi lífsháska. Því hafi þyrlusveitin ákveðið að leggja af stað og sjá til hvort hún kæmist alla leið. Annars myndi hún snúa við. Hann segir að ókyrrðin hafi aukist eftir því sem þyrlan nálgaðist Búrfell og Heklu og talsvert hafi verið um sviptivinda.

Benóný segir fjallabylgjur og ókyrrð af fjöllum skipta höfuðmáli þegar farið er inn á hálendið í þyrlunni. Því þurfi ekki að vera svo hvasst til að það sé ófært. "Við urðum að fara talsverðar krókaleiðir til að fljúga af okkur ókyrrðina. Þess vegna vorum við svona lengi á leiðinni inn eftir." Alls tók útkallið rétt rúma tvo tíma, en þyrlan var um klukkutíma á leiðinni á slysstað, vegalengd sem venjulega tekur um hálftíma að fljúga. "Svona ákvarðanatökur eru alltaf erfiðar. Að meta hvort útkallið sé réttlætanlegt út frá öryggissjónarmiðum. Flugskilyrðin voru vissulega erfið, en við vorum ekki nálægt neinum hættumörkum að mínu mati."

Vel tókst að síga til Andrínu og hífa hana og sigmanninn aftur um borð í þyrluna. "Andrína er vissulega mikill kjarnakvenmaður. Hún var mjög vel útbúin og orðin ansi köld á fótunum, en að öðru lagi í mjög góðu ásigkomulagi. Það kom okkur mjög á óvart miðað við aðstæðurnar sem hún var búin að vera í og það í þrjá klukkutíma," segir Benóný. Hann segir að vatnið hafi náð henni hátt í mitti og hún hafi verið fegin að komast inn í hlýjuna í þyrlunni.

Benóný játar því að það hafi komið honum á óvart að sjá aðstöðuna sem Andrína var í. "Hún virtist vera þarna úti í miðju vatninu. Það fyrsta sem mér datt í hug var hvort vatnið hefði breyst svona á þremur tímum eða hvernig í ósköpunum hún komst út í mitt vatnið. Það kom okkur á óvart. Þetta leit hálfískyggilega út," segir Benóny.