HAGNAÐUR Vinnslustöðvarinnar hf. einnar og sér nam 902 milljónum króna á árinu 2002 en var 35 milljónir árið áður. Heildartekjur félagsins jukust um 129 milljónir og voru 3.609. Framlegð, þ.e. hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, var 1.

HAGNAÐUR Vinnslustöðvarinnar hf. einnar og sér nam 902 milljónum króna á árinu 2002 en var 35 milljónir árið áður. Heildartekjur félagsins jukust um 129 milljónir og voru 3.609. Framlegð, þ.e. hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, var 1.119 milljónir og dróst saman um 63 milljónir frá fyrra ári. Framlegðarhlutfallið var 31% og lækkaði úr 33,9% frá árinu áður. Þá var veltufé frá rekstri 1.015 milljónir á árinu 2002, sem er 28% af rekstrartekjum.

Fjármagnsgjöld Vinnslustöðvarinnar einnar og sér voru 1.118 milljónum króna lægri á árinu 2002 en árið áður sem skýrist fyrst og fremst af 475 milljóna króna gengishagnaði. Á árinu 2001 var gengistap félagsins 565 milljónir. Umskipti fjármagnsliða er því hærri en sem nemur þeirri hagnaðaraukningu sem varð á milli áranna 2001 og 2002.

Sameiginlegur hagnaður Vinnslustöðvarinnar hf., Jóns Erlingssonar ehf. og Úndínu ehf. var 1.069 milljónir króna árið 2002 og veltufé frá rekstri 1.093 milljónir króna. Vinnslustöðin keypti 50% hlut í Úndínu ehf. og 60% hlutabréfa í Jóni Erlingssyni ehf. á árinu og námu heildartekjur hinna sameinuðu félaga 3.786 milljónum króna. Framlegð var 1.243 milljónir króna, eða 32,8%.

Í fréttatilkynningu frá Vinnslustöðinni kemur fram að gert sé ráð fyrir að tekjur félagsins verði 3.600 milljónir króna á þessu ári og framlegð verði 1.000 milljónir króna og dragist því saman um 20% ef miðað er við sameiginlega framlegð Vinnslustöðvarinnar hf., Jóns Erlingssonar ehf. og Úndínu ehf. á árinu 2002. Þá er gert ráð fyrir að afskriftir nemi 530 milljónum króna og fjármagnskostnaður verði 200 milljónir króna. Hagnaður félagsins er því áætlaður 270 milljónir króna.

Sjómannaforystan sýni sanngirni varðandi fiskverð

Í tilkynningunni segir að Vinnslustöðin sé stærsti einstaki vinnuveitandinn í Vestmannaeyjum með mikla samfélagslega ábyrgð og þá ábyrgð geti félagið aðeins axlað að það sé rekið með viðunandi afkomu. Í þessu ljósi benda stjórnendur félagsins á að bolfiskverð til útgerðar félagsins sé orðið allt of hátt og afkoma landvinnsludeilda óviðunandi. "Forsvarsmenn Vinnslustöðvarinnar hf. skora því á sjómannaforystuna að sýna sanngirni í kröfum sínum um fiskverð og tefla ekki í tvísýnu atvinnu og afkomu þess fólks sem enn starfar við fiskvinnslu í Eyjum," segir í tilkynningunni.

Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði 20% arður og að réttur til arðs miðist við hluthafaskrá í lok aðalfundardags sem ákveðinn hefur verið 2. maí nk.