TAP Skýrr hf., sem gert er upp ásamt dótturfélaginu Teymi ehf., nam 55 milljónum króna á árinu 2002 eftir skatta. Teymi kom inn í rekstraruppgjör samstæðunnar frá og með 1. júlí 2002. Árið áður var tap Skýrr 128 milljónir.

TAP Skýrr hf., sem gert er upp ásamt dótturfélaginu Teymi ehf., nam 55 milljónum króna á árinu 2002 eftir skatta. Teymi kom inn í rekstraruppgjör samstæðunnar frá og með 1. júlí 2002. Árið áður var tap Skýrr 128 milljónir.

Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2002 námu alls 1.958 milljónum króna en 1.992 milljónum árið áður og lækka því um 1,7% milli ára. Meðal rekstrartekna á árinu 2002 er söluhagnaður að fjárhæð 3 milljónir, samanborið við 45 milljóna söluhagnað árið áður. Í tilkynningu félagsins er þess getið að á árinu 2001 hafi auk þess verið stór sala á Oracle viðskiptalausnum til ríkisins. Rekstrargjöld ársins, að meðtöldum afskriftum, námu 1.825 milljónum en 1.887 milljónum árið áður. Framlegð sem hlutfall af veltu hækkar úr 10,8% í 13,7% milli ára.

Í tilkynningunni segir að rekstur móðurfélagsins hafi gengið mjög vel í fyrra. Þannig hafi EBITDA numið 278 milljónum, eða 15,4% af veltu, en upphafleg rekstraráætlun gerði ráð fyrir 270 milljónum. Segir að þetta sé besta rekstrarár félagsins frá upphafi.

Hlutabréfaeign færð niður um 140 milljónir

Fjármagnsliðir ársins eru jákvæðir um 4 milljónir, en árið áður voru þeir neikvæðir um 42 milljónir. Segir í tilkynningunni að þar muni mest um 27 milljóna gengishagnað vegna styrkingar krónunnar. Sérstök niðurfærsla hlutabréfaeignar nemur samtals 140 milljónum á árinu, samanborið við 263 milljónir árið 2001. Um er að ræða bæði niðurfærslur vegna lækkunar á markaðsgengi skráðra hlutabréfa í eigu félagsins og jafnframt sérstakra niðurfærslna vegna eignarhluta í öðrum félögum. Þessi niðurfærsla skýrist að stærstum hluta af lækkun á bréfum í Columbus IT Partner A/S og Decode Genetics Inc., sérstakri niðurfærslu á hlutabréfum í Línu.Net hf. og auk þess er niðurfærsla á nokkrum eignarhlutum í öðrum fyrirtækjum, sem áður voru í eigu Teymis hf.

Góð verkefnastaða

Í tilkynningu Skýrr segir að verkefnastaða félagsins í upphafi árs sé áfram góð. Nýlega hafi verið gerðir samningar um nokkur stór verkefni. Áfram verður unnið að innleiðingu á Oracle viðskiptalausnum fyrir ríkið, en reiknað sé með að það verkefni klárist að stærstum hluta um mitt þetta ár. Við taki m.a. þjónusta við núverandi viðskiptavini og vonir séu bundnar við ný verkefni á þessu sviði. Almennt sé reiknað með að eftirspurnin á markaðnum verði svipuð og á síðasta ári.