Mörg hundruð þúsund manns tóku þátt í mótmælunum í Berlín á laugardag. Hér sést mannfjöldinn á leið um Brandenborgarhliðið.
Mörg hundruð þúsund manns tóku þátt í mótmælunum í Berlín á laugardag. Hér sést mannfjöldinn á leið um Brandenborgarhliðið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MILLJÓNIR manna tóku um helgina þátt í mótmælum í um 60 löndum vegna hugsanlegs stríðs gegn Írak og er talið að aldrei hafi jafnmargt fólk tekið þátt í aðgerðum af þessu tagi samtímis. Víða var gerð hörð hríð að George W.

MILLJÓNIR manna tóku um helgina þátt í mótmælum í um 60 löndum vegna hugsanlegs stríðs gegn Írak og er talið að aldrei hafi jafnmargt fólk tekið þátt í aðgerðum af þessu tagi samtímis. Víða var gerð hörð hríð að George W. Bush Bandaríkjaforseta og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og þeir sagðir samviskulausir stríðsæsingamenn sem vildu öllu fórna til að komast yfir olíulindir Íraka. Bush var sagður hættulegur "kúreki" og Blair "kjölturakki" hans. Fjölmenn mótmæli voru sums staðar í ríkjum araba, meðal annars í Líbanon, Sýrlandi og Írak. Um 3.000 arabar og Ísraelar gengu auk þess saman í Tel Aviv og mótmæltu stríði.

Víðast hvar fóru mótmælin friðsamlega fram en í Aþenu beitti lögregla táragasi á laugardag gegn nokkur hundruð stjórnleysingjum er brutu rúður og fleygðu bensínsprengju að skrifstofu fréttablaðs. Settur var upp mikill borði á vegg Akrópólis-hæðarinnar og á honum stóð: "Atlantshafsbandalagið, Bandaríkin og Evrópusambandið jafngilda stríði." Í New York voru um 50 manns handteknir og átta lögreglumenn slösuðust, einn þeirra er hann var felldur af hesti sínum og barinn, að sögn talsmanns lögreglunnar.

Á föstudag komu yfir hundrað þúsund manns saman í Melbourne í Ástralíu en einnig tók fjöldi fólks þátt í mótmælum í Sydney og höfuðborginni, Canberra, á laugardag og sunnudag. Mest var umfangið á laugardeginum víða um heim, þá taldi lögregla að allt að milljón manna hafi gengið um götur Rómar og var Silvio Berlusconi forsætisráðherra hart gagnrýndur fyrir stuðning við stefnu Bandaríkjanna gagnvart Írak. "Menn berjast ekki gegn hryðjuverkum með fyrirbyggjandi hernaði. Menn berjast gegn hryðjuverkum með því að skapa meira réttlæti í heiminum," sagði 56 ára gamall karlmaður, Tommaso Palladini, frá Mílanó.

Eingöngu olíuhagsmunir

Litlu færri voru á fundinum í Hyde Park í London, um 750 þúsund að sögn lögreglu en þar fór Ken Livingstone borgarstjóri hörðum orðum um Bush, að sögn Aftenposten. "Breska þjóðin sættir sig ekki við að hún sé notuð til að styðja bandarísku ríkisstjórnina, stjórn sem er spilltari og hallari undir kynþáttahatur en þekkst hefur þar í landi í meira en 80 ár," sagði Livingstone. Hann sagði að stríð gegn Írak myndi einvörðungu snúast um olíuhagsmuni; Bush forseti hefði aldrei hirt neitt um mannréttindi.

Aðalræðumaður dagsins var bandaríski stjórnmálamaðurinn Jesse Jackson sem sagði m.a. að ekki væri "of seint að stöðva þetta stríð". Skipuleggjendur í London og á fleiri stöðum sögðu að þátttakendur hefðu verið mun fleiri en fram kom í ágiskunum lögreglunnar.

Á Spáni fóru milljónir manna út á göturnar í meira en 50 borgum og bæjum, þar af voru yfir 660.000 í Madrid og enn fleiri í Barcelona. Mun ekki hafa verið efnt til jafnfjölmennra útifunda á Spáni síðan einræðisherrann Francisco Franco lést árið 1975 en þá krafðist almenningur lýðræðis.

Um hálf milljón manna tók þátt í aðgerðunum í Berlín þar sem gengið var frá Alexanderplatz um Brandenborgarhliðið yfir að Sigursúlunni þar sem fólkið sameinaðist annarri göngu frá Kurfürstendamm. Meðal göngumanna var forseti þingsins, Wolfgang Thierse og nokkrir ráðherrar. Sumir ræðumenn réðust harkalega á Bush og kölluðu hann "fasista-kúreka". Yfir 100.000 voru á útifundum í París á laugardag og þátttakendur í báðum höfuðborgunum hylltu ráðamenn landa sinna fyrir að styðja ekki stefnu Bush í Íraksmálunum.

Um 70.000 mótmæltu í Amsterdam í Hollandi og nokkru færri í Brussel. Þátttakendur voru um 60.000 i Ósló, 35.000 í Stokkhólmi, 25.000 í Kaupmannahöfn og um 80.000 í Dublin. Um 5.000 manns komu saman á mótmælafundi í Tókýó í Japan, mótmælendur í Seoul í Suður-Kóreu líktu Bush við hryðjuverkamann, í Malasíu voru bornar myndir af honum með gular eldflaugar í stað tanna.

Lögregla taldi að um 100.000 manns hefðu gengið um götur New York og safnast saman við aðalstöðvar Sameinuðu þjóðanna á Manhattan en skipuleggjendur giskuðu á að þátttakendur hefðu verið á bilinu 375.000 til 500.000. Miklar öryggisráðstafanir voru í borginni vegna ótta við hryðjuverkaárásir. Borin voru spjöld í göngunni þar sem m.a. stóð: "Ekkert blóð fyrir olíu." Mannréttindafrömuðir á borð við Desmond Tutu, erkibiskup í Höfðaborg í Suður-Afríku, fluttu ávörp og mikið bar á frægu fólki úr listum og afþreyingarframleiðslu.

"Þótt menn eigi stærstu byssurnar er ekki þar með sagt að þeir verði að nota þær," sagði Martin Luther King þriðji, sonur samnefnds baráttumanns fyrir réttindum blökkumanna er myrtur var á sjöunda áratugnum. Við ræðustólinn var geysistór borði með áletruninni "Heimurinn vill ekki stríð". Sums staðar sáust að sögn breska ríkisútvarpsins BBC spjöld þar sem Frökkum og Þjóðverjum var þakkað fyrir að snúast gegn stefnu Bush. Tugþúsundir manna tóku auk þess þátt í mótmælum í Los Angeles og fleiri borgum í Bandaríkjunum.

New York, London, París, Róm, Sydney. AP, AFP.

Höf.: New York, London, París, Róm, Sydney. AP, AFP