LEEDS slapp fyrir horn í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu í gær þegar liðið lagði 1. deildarfélag Crystal Palace, 2:1, á Selhurst Park í London.

LEEDS slapp fyrir horn í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu í gær þegar liðið lagði 1. deildarfélag Crystal Palace, 2:1, á Selhurst Park í London. Glæsimark frá Harry Kewell skildi liðin að í lokin en hann lék varnarmenn Palace grátt í skyndisókn og skoraði með fallegu skoti. Annars áttu leikmenn Leeds í vök að verjast lengi vel og voru heppnir í stöðunni 1:1 þegar aðstoðardómari sá ekki þegar boltinn fór vel innfyrir marklínu Leeds. Að auki varði varnarmaður liðsins með hendi sekúndubrotum áður án þess að upp um hann kæmist.

Southampton lenti í miklum vandræðum með 1. deildarlið Norwich á heimavelli en vann að lokum 2:0. Anders Svensson braut ísinn með marki 20 mínútum fyrir leikslok og varamaðurinn Jo Tessem bætti öðru við rétt á eftir.

Fulham náði ekki að knýja fram sigur gegn 1. deildarliði Burnley á heimavelli. Úrslit urðu 1:1 og Burnley fær annað tækifæri á heimavelli. Sheffield United lagði Walsall, 2:0, í uppgjöri tveggja 1. deildarliða og á því enn bikargengi að fagna. Liðið var nálægt því að komast í úrslit deildabikarsins á kostnað Liverpool eftir tvær rimmur liðanna í síðasta mánuði. Loks komst Wolves í átta liða úrslitin í gærkvöld með því að sigra 3. deildarlið Rochdale, 3:1.