JUVENTUS skákaði Mílanóliðunum í gær, nýtti sér stigamissi þeirra beggja og komst á topp ítölsku 1. deildarinnar í knattspyrnu með góðum útisigri á Parma, 2:1.

JUVENTUS skákaði Mílanóliðunum í gær, nýtti sér stigamissi þeirra beggja og komst á topp ítölsku 1. deildarinnar í knattspyrnu með góðum útisigri á Parma, 2:1. "Það er alltaf erfitt að spila hérna en við erum með mjög traust lið og sigurviljinn er gífurlegur," sagði Marcello Lippi, þjálfari Juventus.

Inter beið lægri hlut gegn Chievo, 2:1, þar sem Eugenio Corini skoraði úr tveimur vítaspyrnum fyrir heimamenn en var rekinn af velli áður en yfir lauk. AC Milan komst í hann krappan heima gegn Lazio í gærkvöld, lenti 0:2 undir en jafnaði, 2:2, með mörkum frá Filippo Inzaghi og Rivaldo.