Sú rödd var svo fögur, svo hugljúf og hrein, sem hljómaði til mín úr dálitlum runni. Hún sat þar um nætur og söng þar á grein svo sólfögur ljóð um svo margt sem ég unni.

Sú rödd var svo fögur, svo hugljúf og hrein,

sem hljómaði til mín úr dálitlum runni.

Hún sat þar um nætur og söng þar á grein

svo sólfögur ljóð um svo margt sem ég unni.

Og kvöld eftir kvöld hóf hún ástarljóð ein, -

ó, ef að þú vissir, hvað mikið hún kunni.

Hún kvað um sitt fjölbreytta fjalldala skraut,

hve frítt er og rólegt að eiga þar heima,

hve mjúkt er í júní ljósgrænni laut,

hve létt þar er vetrarins hörmum að gleyma

og hvað þá er indælt við ættjarðar skaut

um ástir og vonir að syngja og dreyma.

En sætust af öllum og sigrandi blíð

hún söng mér þar ljóðin um dalbúans næði,

um lundinn sinn kæra og lynggróna hlíð,

þó lítil og fátækleg væru þau bæði.

En svipurinn hýrnar, þér sýnast þau fríð

í syngjandi snjótittlings vornæturkvæði.

- - -

Þorsteinn Erlingsson