BENSÍN hefur hækkað á sjálfsafgreiðslustöðvunum um 7,2% á undanförnum 10 dögum. Þá kostaði lítrinn af 95 oktana bensíni hjá Orkunni 89,10 krónur en hjá ÓB - ódýru bensíni og ESSO Express 89,20 krónur.

BENSÍN hefur hækkað á sjálfsafgreiðslustöðvunum um 7,2% á undanförnum 10 dögum. Þá kostaði lítrinn af 95 oktana bensíni hjá Orkunni 89,10 krónur en hjá ÓB - ódýru bensíni og ESSO Express 89,20 krónur. Í gær kostaði lítrinn hjá Orkunni 95,50 krónur en hjá ÓB og Esso Express 95,60 krónur.

Gunnar O. Skaptason, framkvæmdastjóri Orkunnar, sagði skýringuna á verðbreytingum hjá Orkunni að undanförnu einfalda. "Við settum okkur það markmið í upphafi að vera ódýrastir á markaðnum. Ef breyting verður á honum fylgjum við því örugglega eftir. Um daginn gerðist það að heimsmarkaðsverð fór upp en verð á Íslandi niður. Þá hefðum við gjarnan viljað fylgja heimsmarkaðsverðinu, en við gátum það ekki því við urðum að fara eftir markaðnum til að standa við það að vera ódýrastir," sagði Gunnar. Öll þrjú olíufélögin, ESSO, OLÍS og Skeljungur, voru með nákvæmlega sama verð á 95 oktana bensíni á höfuðborgarsvæðinu í gær. Ef um fulla þjónustu var að ræða kostaði lítrinn 100,80 krónur hjá þeim öllum. Í sjálfsafgreiðslu var veittur fjögurra króna afsláttur og því kostaði lítrinn 96,80 krónur hjá öllum þremur fyrirtækjunum. Þetta er sama verð og var hjá fyrirtækjunum fyrir helgi þegar hækkun átti sér stað.

Hjörleifur Jakobsson, forstjóri ESSO, sagði við Morgunblaðið í gær að meira jafnvægi virtist vera að nást á markaðnum.

Hinn 7. febrúar kostaði lítrinn af 95 oktana bensíni hjá ESSO 91,20 krónur í sjálfsafgreiðslu. Á bensínstöðvum Shell og OLÍS var sjálfsafgreiðsluverðið 93,20 kr. fyrir 95 oktana bensín.