EDDA - útgáfa hf. hefur keypt birgðir og útgáfurétt bókaforlagsins Iðunnar af Fróða hf. Hyggst Edda halda nafni þessa fornfræga forlags á lofti með útgáfu bóka undir merkjum þess. Gengið var frá kaupunum fyrir helgina.

EDDA - útgáfa hf. hefur keypt birgðir og útgáfurétt bókaforlagsins Iðunnar af Fróða hf. Hyggst Edda halda nafni þessa fornfræga forlags á lofti með útgáfu bóka undir merkjum þess. Gengið var frá kaupunum fyrir helgina.

Bókaútgáfan Iðunn var stofnuð af Valdimar Jóhannssyni árið 1945 og var lengi ein af öflugustu bókaútgáfum landsins. Hún gaf út íslensk skáldverk, þýddar bækur, fræðirit og ritraðir þar sem Öldin og Saga Reykjavíkur eru meðal þekktustu verka. Fróði eignaðist Iðunni fyrir nokkrum árum og hefur rekið forlagið sem bókadeild Fróða.

Eitt af merkari nöfnum í íslenskri bókaútgáfu

Halldór Guðmundsson, útgefandi Eddu - útgáfu hf., segir að fyrirtækið hafi á síðasta ári skerpt áherslur sínar í bókaútgáfu og bóksölu og í þeim tilgangi selt tímaritaútgáfu sína. "Það er draumur okkar að til sé verulega öflugt bókaforlag á Íslandi, til þess að unnt sé að ráðast í stór verkefni. Til þess þarf breidd í útgáfu og lager til að þjóna ólíkum lesendahópum. Kaupin á bókadeild Fróða styrkja til muna þessar áherslur," segir Halldór Guðmundsson.

Halldór segir að Iðunn sé eitt af merkari nöfnum í íslenskri bókaútgáfu. Ætlunin sé að halda nafni þess á lofti með útgáfu bóka í nafni þess. Útgáfustjóri Iðunnar verður Sigurður Svavarsson.

Auk Iðunnar rekur Edda - útgáfa nú innan sinna vébanda meðal annars bókaforlögin Almenna bókafélagið, Forlagið, Mál og menningu, Vöku-Helgafell og Þjóðsögu. Auk þess hefur fyrirtækið gefið út diska með tónlist.

Fróði einbeitir sér að margmiðlun og útgáfu tímarita

Fróði hf. hefur á undanförnum árum haft þríþætta starfsemi með höndum, þar sem tímaritaútgáfan er stærst, en þar fyrir utan hefur fyrirtækið fengist við bókaútgáfu og upplýsingaþjónustu í formi handbóka og á veraldarvefnum. Eftir sölu bókaútgáfunnar mun fyrirtækið einbeita sér að þessum tveimur sviðum, þ.e. tímaritaútgáfu og margmiðlun, að því er segir í fréttatilkynningu frá félögunum.

Að sögn Halldórs mun Edda - útgáfa ganga til samninga við sölufólk hjá bókadeild Fróða um starf hjá Eddu.