ARSENAL átti ekki í teljandi erfiðleikum þegar liðið heimsótti Manchester United á Old Trafford í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar ensku á laugardaginn. Bikarmeistararnir voru miklu sterkari aðilinn í leiknum og sigruðu 2:0 í leik þar sem heimamenn náðu sér alls ekki á strik og vilja þeir örugglega gleyma leiknum sem fyrst.

Ryan Giggs vill örugglega gleyma leiknum sem fyrst. Það var óvíst fram á síðustu stundu hvort hann gæti leikið, en hann stóðst læknisskoðun og var í byrjunarliðinu. Eftir hálfrar klukkustundar leik fékk hann kjörið færi til að koma heimamönnum yfir en tókst á einhvern óskiljanlegan hátt að skjóta yfir autt markið frá vítateig, með verri fætinum - þeim hægri. Giggs fékk frábæra sendingu frá fyrirliða sínum, lék á varnarmann og David Seaman markvörð sem kom út á vítateigslínuna. Síðan leit Giggs upp, sá autt markið en sendi boltann yfir það.

Sir Alex Ferguson var eins og steinrunninn, engin svipbrigði sáust á kappanum en hann brást hins vegar illa við þegar Brasilíumaðurinn Edu kom meisturunum yfir fjórum mínútum síðar. Edu tók aukaspyrnu rétt utan teigs, ætlaði að senda boltann yfir varnarvegginn en hann lenti í öxlinni á David Beckham, breytti um stefnu og fór hægra megin við Fabien Barthez, sem var lagður af stað í hitt hornið og átti ekki möguleika.

Fyrri hálfleikur þessa stórleiks helgarinnar í Englandi var nokkuð jafn en meistararnir í Arsenal voru þó ívið sterkari og miðjumenn liðsins réðu gangi mála. Markaskorarnir Thierry Henry og Dennis Bergkamp voru ekki í byrjunarliðinu, Henry kom inná á 73. mínútu en Bergkamp var ekki í leikmannahópnum að þessu sinni.

Fátt er svo með öllu illt...

"Við vorum óheppnir að komast ekki yfir í fyrri hálfleik. Giggs var búinn að gera það erfiðasta, leika á markvörðinn og varnarmanninn, en mistókst að ljúka við verkefnið. Eftir að við lentum 2:0 undir var ljóst að þetta yrði erfitt enda lék Arsenal vel og skipulega og við komumst lítt áleiðis," sagði Ferguson eftir leikinn.

"Það eina góða við slæm úrslit hér í dag er að það léttir óneitanlega á okkur að vera fallnir út úr bikarnum. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þeirri keppni og getum einbeitt okkur að deildinni og Meistarakeppninni," sagði framkvæmdastjórinn.

Edu átti stóran þátt í öðru marki Arsenal sem kom snemma í síðari hálfleiknum. Hann og Sylvain Wiltord léku vel saman, Edu renndi á Wiltord sem lék illa á Wes Brown og skoraði af öryggi. Eftir þetta léku meistararnir af mikilli skynsemi, héldu boltanum vel innan liðsins og Edu og Patrick Vieira hreinlega yfirspiluðu þá Paul Scholes og Roy Keane á miðsvæðinu og sóknaraðgerðir heimamanna voru máttleysislegar.

"Þetta var góður sigur sem ég vona að styrki okkur í trúnni á því hvers við erum megnugir og hvað við ætlum að gera á þessari leiktíð. Þetta er mikilvægt þar sem við eigum mikið af erfiðum leikjum framundan. Liðið virðist vera mjög stöðugt um þessar mundir og það er gott fyrir framtíðina," sagði Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, eftir leikinn.

Hann sagði Giggs hafa verið óheppinn að koma heimamönnum ekki yfir skömmu áður en Edu skoraði fyrir Arsenal. "Giggs gerði allt rétt, nema að skora. Ég er samt ekki viss um að við hefðum tapað leiknum þó svo hann hefði skorað," sagði Wenger og Ferguson tók undir þau orð.

Knattspyrnustjórarnir eru engir perluvinir en þeir voru þó greinilega báðir sammála um að dómarinn Jeff Winter var ekki starfi sínu vaxinn að þessu sinni. Leikurinn var mjög grófur fyrstu mínúturnar, sérstaklega voru heimamenn grófir og sumir leikmenn gestanna duttu við hvert tækifæri og gerðu meira úr ákveðnum atvikum en efni stóðu til. Peter Schmeichel, fyrrum markvörður United, lýsti leiknum í sjónvarpi og hann var ekki par hrifinn af hörkunni hjá van Nistelrooy og Scholes sem voru greinilega eitthvað pirraðir á laugardaginn. Enginn var þó rekinn af velli og það er ljóst að ekkert verður gefið eftir þegar liðin eigast við í apríl undir lok deildarkeppninnar.