Ívar Ingimarsson
Ívar Ingimarsson
ÍVAR Ingimarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, byrjaði vel sem lánsmaður hjá Brighton í ensku 1. deildinni á laugardaginn.

ÍVAR Ingimarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, byrjaði vel sem lánsmaður hjá Brighton í ensku 1. deildinni á laugardaginn. Brighton, sem hefur setið á botni deildarinnar frá byrjun í haust, vann Bradford á útivelli, 1:0, og komst í fyrsta skipti úr neðsta sætinu - uppfyrir bæði Stoke City og Sheffield Wednesday.

Ívar, sem er í láni í einn mánuð frá Wolves, kom inn í vörnina og þótti standa sig mjög vel. "Það var ein afgerandi breyting á liðinu. Ívar Ingimarsson var kominn í staðinn fyrir hinn meidda Pethick, og ég segi það hér og nú að hann lék frábærlega í sínum fyrsta leik. Steig ekki feilspor, afar einbeittur, Ísmaðurinn Ívar verður eftirlæti stuðningsmanna Brighton." Þannig hljóðaði lýsing á þætti Ívars í leiknum á vefsíðu stuðningsmanna Brighton.

Brighton hefur nú unnið tvo leiki í röð, í fyrsta skipti á tímabilinu, og hefur sótt sig jafnt og þétt eftir að Steve Coppell tók við liðinu í að því er virtist vonlausri stöðu fyrir áramótin.