Húsið sjálft er ekki mikið skemmt en innbúið mjög illa farið. Myndin er tekin á 1. hæð þar sem eldurinn var mestur.
Húsið sjálft er ekki mikið skemmt en innbúið mjög illa farið. Myndin er tekin á 1. hæð þar sem eldurinn var mestur.
ALLT tiltækt slökkvilið, eða um 100 manns, var kallað út vegna bruna í þriggja hæða timburhúsi við Skólastræti í miðbæ Reykjavíkur á laugardag. Betur fór en á horfðist og tókst fyrstu slökkviliðsmönnunum sem komu á vettvang að ná stjórn á eldinum.

ALLT tiltækt slökkvilið, eða um 100 manns, var kallað út vegna bruna í þriggja hæða timburhúsi við Skólastræti í miðbæ Reykjavíkur á laugardag. Betur fór en á horfðist og tókst fyrstu slökkviliðsmönnunum sem komu á vettvang að ná stjórn á eldinum. Hátt í 60 slökkviliðsmenn fóru í útkallið, en Hrólfur Jónsson slökkviliðsstjóri segir að menn hafi viljað hafa vaðið fyrir neðan sig vegna staðsetningar og þar sem um gamalt timburhús var að ræða.

Hrólfur segir að aldrei hafi þó verið hætta á að eldurinn breiddist í nærliggjandi hús, en húsið stendur á bak við verslun Hans Petersen í Bankastræti. Menn hafi þó viljað vera viðbúnir fyrir það versta. Hann segir að vel hafi gengið að ráða niðurlögum eldsins, en slökkviliðsmenn hafi fengið greinargóðar upplýsingar um hvar mesti eldurinn væri frá manni sem bjargaðist úr húsinu. "Þannig fóru menn strax í aðaleldinn og komu í veg fyrir að hann breiddist um húsið. Miklar skemmdir urðu þó af sóti, reyk og vatni. Eldurinn var fyrst og fremst á fyrstu hæð hússins, aðallega í kringum eldhúsið," segir Hrólfur.

Húsið ekki mikið skemmt en innbú illa farið

Tilkynning um eldinn barst slökkviliðinu um hádegi á laugardag og var strax brugðist við með því að kalla út menn af þeim fjórum stöðvum sem slökkvilið höfuðborgarsvæðisins er með. Síðan hafi verið hringt í alla starfsmenn slökkviðiliðsins, alls hafi um 60 manns verið kallaðir út. Hrólfur segir að það hafi tekið 30-45 mínútur að ráða niðurlögum eldsins, en slökkviliðið hafi verið að störfum á vettvangi til klukkan fjögur þennan dag.

Hrólfur segir að maðurinn sem bjargaðist úr húsinu hafi fengið minni háttar reykeitrun og hann hafi verið fluttur á slysadeild. Hann segir húsið sjálft ekki mikið skemmt og að auðvelt verði að gera við það. Innbúið, sérstaklega á fyrstu hæð, sé illa farið. Þá hafi mikið af verðmætum hlutum skemmst, á borð við málverk og gömul kort, sem voru í einni íbúð hússins.

Óskar Sigurðsson lögreglufulltrúi segir eldsupptök enn ókunn, en lögreglan vinni nú að rannsókn málsins. Gerir hann ráð fyrir því að niðurstaða í rannsókninni muni liggja fyrir síðar í dag, eða á morgun.