ÞEIR fiska sem róa. Hið vel mannaða fley KA virtist vera á sóknarmarki í upphafi vertíðar er att var kappi við Kópavogsskútu HK.

ÞEIR fiska sem róa. Hið vel mannaða fley KA virtist vera á sóknarmarki í upphafi vertíðar er att var kappi við Kópavogsskútu HK. Þeim fyrrnefndu tókst að hala inn 6 mörk á ríflega 9 mínútum meðan gæftaleysið hrelldi sunnanmenn og aðeins eitt vesælt mark var dregið um borð. Kapteinn Árni Stefánsson hefur marga fjöruna sopið og oftlega migið í brimsaltan sjá. Tókst honum að berja veiðihug í mannskap sinn svo úr varð hin æsilegasta veiðiferð en Jóhannes KA-kapteinn Bjarnason er svo sannarlega af sjóuðu fólki kominn og honum tókst að landa markinu er skildi skipin að í lokin; uppskipuð mörk KA 26 á móti 25 hjá HK.

Leikmenn HK virtust frekar dasaðir þegar þeir gengu til leiks mót KA á laugardaginn. Hugsanlega hefur ferðalagið setið í þeim ellegar hinn rammi bikarleikur í vikunni. KA komst í 6:1 en þá tók Árni Stefánsson leikhlé, barði kjark og þor í sína menn og fullir baráttu breyttu gestirnir stöðunni úr 8:2 í 8:7 á sex mínútum og héldu jöfnu í leikhléi, 12:12. KA-menn tóku Jaliesky Garcia úr umferð frá byrjun en HK svaraði með því að senda mann til höfuðs Arnóri Atlasyni. Leikurinn einkenndist allmjög af ráðabruggi þessu.

Framan af seinni hálfleik höfðu HK-menn frumkvæðið; nokkuð sem engan gat órað fyrir miðað við upphaf leiksins. Staðan var 16:18 að liðnum 10 mínútum í seinni hálfleik en KA-menn jöfnuðu og eftir tæplega tuttugu mínútna leik mátti sjá stöðuna 21:21 á töflunni. Það sem síðan gerðist er verðugt rannsóknarefni en KA skoraði þrjú mörk í röð og tryggði sér þægilega stöðu á endasprettinum. Líklegt má telja að ísköld yfirvegun Baldvins Þorsteinssonar á vítalínunni hafi gert það að verkum að óhug hafi sett að gestunum þótt staðan væri 26:24 er tvær mínútur lifðu af leiknum. Vilhelm Gauti Bergsveinsson minnkaði muninn í eitt mark þegar ein og hálf mínúta var eftir og HK fékk tækifæri til að jafna en Egidijus Petkevicius varði skot Garcia 10 sekúndum fyrir leikslok og sigurinn var í höfn.

Leikurinn kemst ekki á spjöld sögunnar fyrir gæði en spennandi var hann. Ingólfur Axelsson var bestur KA-manna, Petkevicius stóð fyrir sínu í markinu sem og Stelmokas. Þá skoraði Einar Logi Friðjónsson mikilvæg mörk í seinni hálfleik eftir afleitt gengi framan af. Hjá HK stóðu þeir Ólafur Víðir Ólafsson, Vilhelm Gauti Bergsveinsson og markvörðurinn Arnar Freyr Reynisson upp úr. Örlítið meiri grimmd frá Garcia hefði örugglega skilað liðinu að minnsta kosti öðru stiginu.

Stefán Þór Sæmundsson skrifar

Höf.: Stefán Þór Sæmundsson