TANNLÆKNAFÉLAG Íslands hefur hætt bakvöktum neyðarvaktar utan opnunartíma tannlæknastofanna. Verður neyðarvakt félagsins framvegis sinnt milli kl.

TANNLÆKNAFÉLAG Íslands hefur hætt bakvöktum neyðarvaktar utan opnunartíma tannlæknastofanna. Verður neyðarvakt félagsins framvegis sinnt milli kl. 11 og 13 á tannlæknastofum viðkomandi tannlækna á laugardögum og sunnudögum, eins og verið hefur, og með bakvakt virka daga á þeim tíma sem tannlæknastofan er opin. Ekki er lengur um bakvakt að ræða um kvöld og nætur.

Í mörg ár hefur Tannlæknafélag Íslands skipulagt neyðarvakt á höfuðborgarsvæðinu, þar sem tannlæknar skipta með sér vöktum viku í senn. Neyðarvakt hefur til þessa verið með tvennum hætti, annars vegar er um að ræða formlegan opnunartíma milli kl. 11 og 13 á laugardögum og sunnudögum og hins vegar bakvakt frá kl. 16 á föstudegi til kl. 16 næsta föstudag þar á eftir. Á bakvakt hafa tannlæknar opinn farsíma sinn allan sólarhringinn og sinna neyðartilvikum þegar um slíkt er að ræða.

Ástæður breytinganna eru eftirfarandi:

1. Beiðni um útkall um kvöld og nætur er í fæstum tilvikum bráðnauðsynleg og hefur í mörgum tilvikum aðeins í för með sér ónæði fyrir fjölskyldu viðkomandi tannlæknis sökum símhringinga á þeim tíma sólarhringsins.

2. Reynslan sýnir að einvera tannlæknis með sjúklingi utan opnunartíma stofunnar, einkum seint á kvöldin og um nætur, er í sumum tilvikum (fáum) ekki með öllu hættulaus. Af þeim sökum telur Tannlæknafélagið óverjandi að tannlæknar sinni neyðarvakt einir og án nærveru annars fólks utan hefðbundins vinnutíma.

3. Árið 1999 óskaði Tannlæknafélagið eftir viðræðum við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti um skipulag neyðarvaktar vegna tannlækninga. Bréfinu hefur ekki verið svarað.

4. Tannlæknafélag Íslands óskaði á árinu 2001 tvívegis eftir viðræðum við fulltrúa Landspítala um neyðarvakt. Bréfum hefur ekki verið svarað, segir í fréttatilkynningu.