Duranona
Duranona
MAGDEBURG vann auðveldan sigur á Wetzlar, 32:20, í þýsku 1. deildinni í handknattleik og var með yfirburði allan tímann. Staðan var 18:7 í hálfleik.

MAGDEBURG vann auðveldan sigur á Wetzlar, 32:20, í þýsku 1. deildinni í handknattleik og var með yfirburði allan tímann. Staðan var 18:7 í hálfleik. Íslendingarnir hjá Magdeburg höfðu sig ekki mikið í frammi, Ólafur Stefánsson skoraði 2 mörk, annað úr vítakasti, og Sigfús Sigurðsson komst ekki á blað.

Julian Róbert Duranona var hinsvegar í aðalhlutverki hjá Wetzlar og skoraði 8 mörk. Róbert Sighvatsson skoraði ekki og Sigurður Bjarnason var fjarri góðu gamni en hann leikur ekki meira með liðinu í vetur vegna slitins krossbands.

Guðjón Valur Sigurðsson og Patrekur Jóhannesson skoruðu 6 mörk hvor þegar Essen vann Eisenach á útivelli, 28:26, á laugardaginn. Þeir voru í aðalhlutverkum ásamt Úkraínumanninum Oleg Velyky, sem skoraði 10 mörk, en Guðjón Valur var drjúgur undir lok leiksins þegar Essen knúði fram sigurinn.