Gísli H. Jóhannsson vísar Valdimari Þórssyni, Framara, af leikvelli eftir gróft brot, Valdimar fagnar enda stigið tryggt en fyrir aftan þá liggur einn Aftureldingarmanna sár eftir átökin á síðustu sekúndum leiksins.
Gísli H. Jóhannsson vísar Valdimari Þórssyni, Framara, af leikvelli eftir gróft brot, Valdimar fagnar enda stigið tryggt en fyrir aftan þá liggur einn Aftureldingarmanna sár eftir átökin á síðustu sekúndum leiksins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"VIÐ stálum stigi frá Aftureldingu í þessum leik, það er á hreinu, við áttum það ekki skilið," sagði Heimir Ríkharðsson, þjálfari Fram, eftir 24:24, jafntefli við Aftureldingu að Varmá í gær eftir að leikmenn Aftureldingar voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 14:11. Þegar 14 mínútur voru til leiksloka, voru heimamenn sex mörkum yfir, 22:16, en sterk vörn Fram og óyfirvegaður sóknarleikur Aftureldingar varð þess valdandi að sveitirnar deildu með sér stigunum.

Fram situr sem fastast í 7. sæti deildarinnar með 24 stig og á sex leiki eftir en Afturelding er í tólfta sæti með 11 stig og á sjö viðureignir óleiknar. Vonin um sæti í úrslitakeppninni er úr sögunni hjá Mosfellingum en Framarar eru í harðri baráttu um að vera með í potti þeirra átta liða sem að loknum löngum vetri fá tækifæri til að klást um Íslandsmeistaratitilinn á vormánuðum. Í ljósi stöðu Framara kom áhuga- og baráttuleysi þeirra á óvart gegn Aftureldingu. Lengst af var sem úrslitin skiptu liðið engu máli, það væri Aftureldingarmenn sem væru enn með í baráttunni.

"Lið sem ekki leggur sig fram nema í tíu mínútur í leik á ekki skilið að fá stig, en svona er þetta. Í raun er það með ólíkindum að lið sem er að keppast um að komast í úrslitakeppnina skuli mæta til leiks með hangandi haus eins og mínir menn gerðu að þessu sinni," sagði Heimir og var allt annað en sáttur. "Það var sem menn héldu að sigurinn kæmi af sjálfum sér, án allrar fyrirhafnar, slíkur hugsunarháttur gengur aldrei, alveg sama við hvern menn leika og hver staða liða er í deildinni," sagði Heimir og vísaði þeirri kenningu alveg á bug að Fram-liðið væri þreytt eftir tvíframlengdan leik við HK í bikarkeppninni á miðvikudagskvöldið. "Ég kaupi þá skýringu ekki," sagði Heimir og var þar með rokinn til búningsklefa til þess að tala yfir hausmótunum á lærisveinum sínum.

Eftir nokkuð góðan upphafskafla Fram tók Afturelding völdin á vellinum eftir um tíu mínútna leik. Framliggjandi vörn liðsins var geysisterk og Reynir Þór Reynisson með á nótunum í markinu. Skyttur Fram fengu fá tækifæri til að athafna sig og lokað var nær alveg fyrir línuspil. Sóknarleikur Aftureldingar var góður, boltinn gekk hratt á milli manna og vel gekk að finna leiðir framhjá varnarmönnum Fram, ef Sebastían Alexandersson markvörður var undanskilin. Hann varði á tíðum vel og kom í veg fyrir að munurinn var ekki meiri en þrjú mörk í hálfleik, 14:11.

Leikmenn Aftureldingar héldu uppteknum hætti framan af síðari hálfleik, léku hratt og vel gegn framliggjandi og stemmningslausri vörn Framara. Þegar 16,20 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik jók Sverrir Björnsson muninn í sex mörk, 22:16. Fram svaraði með þremur mörkum, þar af tveimur eftir hraðaupphlaup. Munurinn var þar með kominn niður í þrjú mörk, 22:19, og tíu mínútur eftir. Á þessum kafla var sem Fram-liðið vaknaði af Þyrnirósarsvefni. Er trúlegt að leikhlé sem Heimir þjálfari tók í stöðunni 22:17, hafi haft sitt að segja.

Allt annað var að sjá til Framara í vörninni á lokasprettinum, þeir tóku að berjast sem mest þeir máttu. Það sló verulega á sóknarleik Aftureldingar. Hann varð hægari og boltinn gekk ekki eins skilvíslega á milli manna og áður og t.d. var lítið um að hornamenn leystu inn á línu. Flæðið í sóknarleiknum breyttist skyndilega til verri vegar. Þá fékk Atli Rúnar Steinþórsson, línumaður Mosfellinga, úr litlu að moða. Smátt og smátt sáu heimamenn forystuna renna út í sandinn þeim til mikillar og skiljanlegrar gremju. "Ég breytti engu á lokakaflanum, menn einfaldlega vöknuðu og það nægði til að krækja í þetta stig," sagði Heimir, þjálfari Fram.

Atli Rúnar var besti leikmaður Aftureldingar í leiknum. Hann var sívinnandi bæði í vörn og sókn. Guðjón Drengsson og Sebastían voru skástir í Fram-liðinu sem fékk meira út úr leiknum en það verðskuldaði.

Ívar Benediktsson skrifar

Höf.: Ívar Benediktsson