Andrína segir að áhugi hennar á vélsleðaferðum hafi ekki dvínað.
Andrína segir að áhugi hennar á vélsleðaferðum hafi ekki dvínað.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
TF-LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar, bjargaði rúmlega þrítugri konu, Andrínu G. Erlingsdóttur, úr lífsháska í gær, en konan sat föst á vélsleða úti í miðjum krapaelg. Konan beið í þrjá tíma eftir þyrlunni og gengu öldurnar yfir hana meðan hún beið.

TF-LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar, bjargaði rúmlega þrítugri konu, Andrínu G. Erlingsdóttur, úr lífsháska í gær, en konan sat föst á vélsleða úti í miðjum krapaelg. Konan beið í þrjá tíma eftir þyrlunni og gengu öldurnar yfir hana meðan hún beið. Þyrluáhöfnin var undrandi á því hvað Andrína var vel á sig komin og segir flugstjórinn hana mikinn kjarnakvenmann.

"Þetta var svolítið óþægilegt, ég þurfti að halda mér á sleðanum til að fjúka ekki. Ég var nú aldrei hrædd en þetta var ónotalegt samt," segir Andrína sem var á ferð ásamt eiginmanni sínum, Benedikt Bragasyni. "Við vorum að fara yfir krapasvæði og svo opnaðist allt í einu hafsjór fyrir framan okkur og við reyndum að fleyta okkur yfir. Ég lenti í röstinni á eftir sleðanum hjá [Benedikt], sleðinn fór nokkrar veltur og ég kastaðist af honum. Ég fór á bólakaf ofan í krapann og vissi ekki hvað sneri upp eða niður. Ég sá glitta í sleðann, sem stóð aðeins upp úr vatninu, og náði að svamla að honum."

Benedikt reyndi að vaða út í til hennar en sökk upp að höndum strax og hann steig út í. Hann vissi að langt var í aðstoð og sá að eina leiðin til að bjarga konu hans úr prísundinni væri úr þyrlu. Hann óttaðist að þyrlan gæti ekki flogið vegna veðurs.

Benóný Ásgrímsson, flugstjóri þyrlunnar, segir að það hafi verið á mörkunum að björgunin væri framkvæmanleg þar sem mjög vont veður var þegar atvikið varð og búið að spá enn verra veðri. "Svona ákvarðanatökur eru alltaf erfiðar. Að meta hvort útkallið sé réttlætanlegt út frá öryggissjónarmiðum. Flugskilyrðin voru vissulega erfið, en við vorum ekki nálægt neinum hættumörkum að mínu mati," segir Benóný. Hann segir að Landhelgisgæslan hafi talið Andrínu í yfirvofandi lífshættu.