BELGAR féllu í gær frá andstöðu við málamiðlun í Atlantshafsbandalaginu, NATO, í deilunum um aðstoð bandalagsins við Tyrki komi til stríðs við Írak.

BELGAR féllu í gær frá andstöðu við málamiðlun í Atlantshafsbandalaginu, NATO, í deilunum um aðstoð bandalagsins við Tyrki komi til stríðs við Írak. "Samheldni bandalagsins hélt," sagði Robertson lávarður, framkvæmdastjóri NATO, seint í gærkvöldi eftir fund hermálanefndar NATO. Frakkar taka ekki þátt í störfum nefndarinnar en eiga aðild að stjórnmálasamstarfi bandalagsins. Þeir hafa ásamt Þjóðverjum og Belgum neitað að samþykkja að hafinn verði undirbúningur að varnaraðgerðum í Tyrklandi og sagt þær geta komið í veg fyrir friðsamlega lausn. Deilan var talin geta ógnað framtíð NATO.

Bandaríkjamenn hafa reynt að fá Tyrki til að leyfa bandarísku herliði að sækja inn í Írak frá Tyrklandi, komi til stríðs. Var skýrt frá því í gærkvöldi að sjónarvottar hefðu séð fimm geysistórar flutningaflugvélar með bandaríska hermenn lenda á völlum í Suðaustur-Tyrklandi.

Condoleezza Rice, öryggismálaráðgjafi George W. Bush Bandaríkjaforseta, sagði í gær að Saddam Hussein Íraksforseti hefði nokkrar "vikur, ekki mánuði" til að komast hjá stríði og verða við kröfum öryggisráðs SÞ um að veita upplýsingar um írösk gereyðingarvopn. Hún sagði að til greina kæmi að samþykkt yrði ný ályktun í ráðinu en ekki mætti veita Írökum endalaust frest. Áður hafði Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, einnig gefið í skyn að vopnaeftirlitsmenn fengju meiri tíma til að reyna að fá Íraka til samstarfs.

Jacques Chirac Frakklandsforseti segir í viðtali við tímaritið Time, sem birtast mun í dag, að takist að afvopna Íraka með friðsamlegum hætti megi án efa þakka það að miklu leyti þeim þrýstingi sem hernaðarundirbúningur Bandaríkjamanna við Persaflóa hafi lagt á Íraka. Hann segir aðspurður að Frakkar útiloki ekki valdbeitingu gagnvart Írökum ef önnur ráð þrjóti. "Frakkland er ekki land friðarsinna (pasifista)," sagði Chirac.

Brussel, Washington, París. AP, AFP.