FJÖLMIÐLAR stjórnarinnar í Bagdad sögðu í gær að mótmælin gegn stríði sem fram fóru víða um heim um helgina og niðurstaða umræðna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á föstudag væru sigur fyrir Saddam Hussein Íraksforseta.

FJÖLMIÐLAR stjórnarinnar í Bagdad sögðu í gær að mótmælin gegn stríði sem fram fóru víða um heim um helgina og niðurstaða umræðna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á föstudag væru sigur fyrir Saddam Hussein Íraksforseta. Fundur öryggisráðsins "var ósigur fyrir stríðsröksemdir Bandaríkjamanna frammi fyrir öllum íbúum heimsins," sagði Ath-Thawra, málgagn Baath-stjórnarflokksins.

Stjórnarblaðið Al-Jumhuriyia sagði almenning um allan heim, einnig í Bandaríkjunum og Bretlandi, hafa hafnað hótunum Bandaríkjastjórnar í garð Íraka. Þjóðir heims hefðu lýst samstöðu með Írökum og Bandaríkjamenn væru einangraðir. "Allt sýnir þetta hve glæstan sigur Írakar hafa unnið...en Bandaríkin eru á barmi hengiflugs mistaka og endanlegs ósigurs."

Bagdad. AFP.

Höf.: Bagdad. AFP