Málefnalegar áherslur viku fyrir lýðskrumi, rangfærslum og aðdróttunum sem erfitt verður að sjá hvernig Ingibjörg ætlar að rökstyðja.

UM síðustu helgi hélt Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sína fyrstu ræðu sem þingframbjóðandi. Fyrirfram mátti búast við því að forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar myndi kynna hvaða málefnum hún hygðist beita sér fyrir í komandi kosningabaráttu og upplýsa kjósendur um hver sýn hennar á efnahags- og atvinnumál væri. Þeir sem báru þá von í brjósti urðu fyrir vonbrigðum. Málefnalegar áherslur viku fyrir lýðskrumi, rangfærslum og aðdróttunum sem erfitt verður að sjá hvernig Ingibjörg ætlar að rökstyðja. Raunar bendir allt til þess að í þetta skiptið hafi Ingibjörg talað gegn betri vitund í von um vinsældir, en forsendurnar voru vafasamar.

Í ræðu sinni sagði Ingibjörg að helsta meinsemd íslensks efnahags- og atvinnulífs væru afskipti stjórnmálamanna af fyrirtækjum og nefndi dæmi. Beindi hún spjótum sínum persónulega að Davíð Oddssyni forsætisráðherra og gaf í skyn að hann misbeitti valdi sínu. Ásakanir Ingibjargar eru mjög alvarlegar. Hins vegar standast þær ekki skoðun og hitta hana sjálfa, flokk hennar og formann hans verst fyrir.

Afskipti stjórn- málamanna skert

Öllum er ljóst að afskipti stjórnmálamanna af efnahags- og atvinnulífi hafa farið mjög minnkandi sl. 12 ár. Ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hafa markvisst dregið úr afskiptum stjórnmálamanna af atvinnu- og efnahagslífinu. Til sönnunar um það er sú mikla einkavæðing ríkisfyrirtækja sem átt hefur sér stað á Íslandi á þessu tímabili. Tugir ríkisfyrirtækja hafa verið seldir einkaaðilum og hafa því völd sem áður voru í höndum stjórnmálamanna verið færð yfir til einkaaðila og almennings. Ákvörðunarvald í vaxtamálum hefur og verið fært frá stjórnmálamönnum og yfir til Seðlabanka Íslands. Það var undir forystu Davíðs Oddssonar sem sett voru stjórnsýslulög með skýrum reglum um það hvernig stjórnsýslan skuli og megi haga sér og atvinnulífið gert gagnsærra með setningu skýrra og almennra leikreglna sem allir þurfa að lúta. Það eru ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar sem hafa fært opinbert eftirlit með atvinnulífinu til sjálfstæðra stofnana sem ekki lúta boðvaldi stjórnmálamanna. Ef nokkur íslenskur stjórnmálamaður hefur beitt sér fyrir því að draga úr valdi stjórnmálamanna og því að settar væru almennar leikreglur, þá er það einmitt Davíð Oddsson, maðurinn sem Ingibjörg Sólrún telur að nauðsynlegt sé að losna við svo færa megi vald frá stjórnmálamönnum og setja almennar leikreglur!

"Hreinræktaðir drullusokkar"

Hins vegar er óljóst hvað flaug í gegnum huga formanns Samfylkingarinnar meðan svilkona hans flutti ræðu sína. Össur er nefnilega sá stjórnmálamaður sem lengst hefur gengið í afskiptasemi sinni gagnvart fyrirtækjum. Frægt er bréfið sem hann sendi fyrirsvarsmönnum Baugs í "guðs friði - en ekki mínum", svo notað sé orðalag Össurar sjálfs. Þar sagði hann m.a. að Baugsfeðgar væru "hreinræktaðir drullusokkar", að þeir höguðu sér eins og "suðuramerískir gangsterar" og bætti síðan við að svona "menn eiga ekki skilið virðingu samborgara sinna. Því ætla ég að koma til skila". Össur sagðist eiga langa ævi fyrir höndum, sér væri létt um mál og hann lipur með pennann og boðaði frekari afskipti. "You ain't seen nothing yet" sagði formaður Samfylkingarinnar, þess flokks sem að sögn beitir sér sérstaklega gegn því að menn tali um einstök fyrirtæki! Í þingræðu sem Össur hélt nokkru áður hafði hann einnig sent Baugi þessa hátíðarkveðju: "Stóru keðjurnar hafa í skjóli einokunar keyrt upp matarverð. Hreðjatak þeirra á markaðnum hefur kallað fáheyrða dýrtíð yfir neytendur. Ég tel að ríkisstjórninni beri skylda til þess að feta í fótspor verkalýðshreyfingarinnar og fara í viðræður við þá aðila, krefjast þess í nafni þjóðarheillar að þeir sýni ábyrgð og lækki matarverð. Ég held reyndar, herra forseti, að það ættu að vera hæg heimatökin. Er ekki rétt munað hjá mér að helsti trúnaðarmaður ríkisstjórnarinnar, Hreinn Loftsson, formaður einkavæðingarnefndar, sé ennþá stjórnarformaður Baugs? Ef fortölur duga ekki til, herra forseti, þá er það skoðun okkar í Samfylkingunni að Samkeppnisstofnun eigi að fá í hendur þau tæki sem hún þarf til þess að skipa fyrir um breytingar, þar á meðal að skipta upp slíkum einokunarrisum ef hún telur þess þörf til þess að vernda hagsmuni neytenda." Viðbrögð forsætisráðherra voru þau að hugsanlegt væri að grípa til þeirra aðgerða sem kallað var eftir ef, og aðeins ef, sannað væri að fyrirtækið misnotaði markaðsráðandi stöðu sína. Slíkar sannanir hafa ekki verið færðar fram og til engra aðgerða gripið. Ef afskiptasemi stjórnmálamanna er ein helsta meinsemd íslensks efnahags- og atvinnulífs, þá er ljóst við hvaða stjórnmálaflokk er að sakast. Þeir kjósendur sem vilja að afskipti stjórnmálamanna af atvinnulífinu minnki enn, þeir eiga kannski ýmsa kosti. En Samfylkingin er ekki þar á meðal.

Reykjavíkurborg og atvinnulífið

Þegar litið er yfir stjórnartíð Ingibjargar í Reykjavík er ljóst að undir hennar stjórn hefur málum verið hagað þannig að afskipti stjórnmálamanna af atvinnulífinu hafa verið aukin. Nægir þar að nefna útþenslu Orkuveitunnar sem hefur vaxið eins og púkinn á fjósbitanum eftir að R-listinn tók við völdum. Stofnuð hafa verið dótturfélög Orkuveitunnar sem hófu rekstur fjarskiptafyrirtækisins Lína.net á samkeppnismarkaði. Hefur jafnvel verið gengið svo langt að hefja rekstur á líkamsræktarstöð! Og þeim sem finnst furðulegt að borgaryfirvöld láti Orkuveitu reka líkamsræktarstöð, hvað finnst þeim þá um að borgaryfirvöld láti þessa sömu Orkuveitu hefja rækjueldi? Slík útþensla hefur það að markmiði að auka völd stjórnmálamanna og tryggja aukin afskipti þeirra, en ekki draga úr þeim.

Ólíkt hafast þau að

Þeir sem fylgdust með innkomu Ingibjargar Sólrúnar í landsmálin velkjast ekki í vafa um að drifkraftur framboðsins er botnlaus og persónuleg óvild hennar í garð forsætisráðherra. Með framgöngu sinni í vikunni hefur Ingibjörg gefið tóninn fyrir kosningabaráttu Samfylkingarinnar. Kosningabaráttan verður ómálefnaleg og áróðurinn rætinn og persónulegur og raunveruleikinn verður afskræmdur. Sjaldan hefur stjórnmálamaður lagst svo lágt til þess að afla sér fylgis kjósenda.

Við annan tón kveður hjá Sjálfstæðisflokknum. Davíð Oddsson hefur boðað enn minnkandi afskipti stjórnmálamanna af efnahags- og atvinnulífi með því að kynna áform um frekari einkavæðingu Búnaðarbanka, Landsbanka og Íslenskra aðalverktaka. Ennfremur hefur forsætisráðherra boðað skattalækkanir á einstaklinga. Þetta eru áform sem kjósendur ættu að taka opnum örmum.

Eftir Sigurð Kára Kristjánsson

Höfundur er frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Höf.: Sigurð Kára Kristjánsson