"Þegar haft er í huga hvernig fjárins er aflað tel ég að nær væri að fjárfesta í því sem gefur arð til framtíðar: Menntun, rannsóknum og velferðarkerfinu."

ÝMSIR stjórnmálamenn hafa orðið til þess að benda á vankanta í fyrirhuguðum björgunaraðgerðum vegna atvinnuleysisins. Vissulega er það ánægjuefni að ríkisstjórnin hyggist grípa til aðgerða þótt óneitanlega sé kosningalykt af málinu. Sex milljarðar er ansi mikið fé og ýmislegt hægt að gera fyrir slíka peninga. Þessar aðgerðir á að fjármagna með sölu ríkisfyrirtækja og hægt er að velta því fyrir sér hvað verður gert næst þegar í harðbakkann slær. Hvað á að gera þegar búið er að selja frá sér það sem hægt er að koma í verð? Tölurnar líta vel út á blaði en það má ekki gleymast að eignir er einungis hægt að selja einu sinni og því ekki um auknar "tekjur" að ræða heldur er gengið á höfuðstólinn.

Þeir fjármunir sem losna við sölu á ríkiseignum eiga að renna til samgöngumannvirkja út um allt land. Ég tek undir með þeim sem hafa bent á að þetta er skammtímaaðgerð sem verður fremur körlum til hagsbóta en konum. Einstæð atvinnulaus móðir ræður sig ekki í malbikunarvinnu úti á landi.

Þegar haft er í huga hvernig fjárins er aflað tel ég að nær væri að fjárfesta í því sem gefur arð til framtíðar: Menntun, rannsóknum og velferðarkerfinu. Hvernig væri að nota tækifærið og hækka menntunarstig þjóðarinnar með því að bjóða þeim sem eru á atvinnuleysisskrá upp á möguleika til aukinnar menntunar á öllum stigum? Það myndi gagnast báðum kynjum jafnt, að ógleymdum þeim framtíðarhagvexti sem af því fengist. Reyndar má segja að árangur af slíkum aðgerðum kæmi ekki fram nema að litlum hluta fyrir kosningar og þá er takmarki ríkisstjórnarinnar væntanlega ekki náð. Þetta er aftur á móti aðferð sem hefur gefið góða raun í nágrannalöndunum þegar atvinnuleysi lætur á sér kræla.

Sama er að segja um óháðar rannsóknir og nýsköpun. Höfum við virkilega efni á því að nýta ekki þær hugmyndir og þá þekkingu sem býr í fólki sem nú mælir göturnar? Svo ekki sé talað um að koma í veg fyrir þá vanlíðan sem óhjákvæmilega fylgir því að vera án vinnu? Með því að efla rannsóknir og nýsköpun getum við horfið frá þeirri nauðhyggju sem felst í steypu og stóriðju og byggt upp fjölbreytt atvinnulíf sem rúmar hið margbreytilega mannlíf sem hér þrífst.

Látum þetta tækifæri ekki úr greipum ganga og hugsum til framtíðar um hag sem flestra. Fjárfestum í mannauði í stað malbiks.

Eftir Drífu Snædal

Höfundur skipar þriðja sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavík norður.