Grant og Bullock, ólík en sniðin hvort fyrir annað.
Grant og Bullock, ólík en sniðin hvort fyrir annað.
Leikstjórn og handrit: Marc Lawrence. Kvikmyndataka: Laszlo Kovacs. Aðalhlutverk: Sandra Bullock, Hugh Grant, Alicia Witt, Robert Klein, Dana Ivey. Lengd: 98 mín. Bandaríkin. Warner Brothers, 2002.

ÞAÐ ER ekki á hverjum degi sem maður sér rómantíska gamanmynd frá Hollywood sem gengur upp og nær lífga við þá mjög svo útjöskuðu kvikmyndagrein sem um ræðir. Það hefur Marc Lawrence tekist með Two Weeks Notice en þessi frumraun hans á leikstjórnarsviðinu nær að mörgu leyti þeim töfrum og þeim hnyttna húmor sem einkenndi screwball-gamanmyndirnar á 4. og 5. áratugnum, sígildar gamanmyndir sem skörtuðu geislandi stjörnum á borð við Cary Grant, Katherine Hepburn og Rosalind Russell. Í Two Weeks Notice eru það þau Sandra Bullock og Hugh Grant sem leika aðalpersónur og tilvonandi turtildúfur myndarinnar, lögfræðinginn Lucy Kelson og auðjöfurinn George Wade, og standa leikararnir fyllilega undir þeim kröfum um sjarma og hnyttni sem hlutverkin kalla á. Handritið sem Lawrence skrifar sjálfur er vel unnið og greinilega sótt til fyrrnefndra screwball-gamanmynda. Megináhersla er lögð á að byggja upp áhugaverðar persónur og eru snúin og spennuþrungin samskipti þeirra megindrifkrafturinn í sögunni. Þetta er einkar vænleg aðferð til að búa til góða rómantíska gamanmynd því framvindan í slíkum myndum er óhjákvæmilega fyrirsjáanleg, elskendunum er ætlað að fara í gegnum ýmsar hindranir og ná saman í lokin. Í myndinni birtast jafnframt kunnuglegar persónugerðir ef litið er til screwball-gamanmynda á borð við Philadelphia Story og His Girl Friday; karlhetjan George er myndarlegur og auðugur spjátrungur, nokkurs konar "ofursjarmur", sem kvenhetjan Lucy, skörp og heillandi, en um leið mjög stolt og þvermóðskufull ung kona, ætlar sér alls ekki að falla fyrir. Gæti lýsing þessi fullvel átt við persónurnar sem Grant, Hepburn og Rosalind Russell leika í áðurnefndum gullaldarmyndum.

Persónusköpunin byrjar reyndar strax í kynningartitlum myndarinnar þar sem ljósmyndir gefa innsýn í hið ólíka uppeldi sem söguhetjurnar hafa notið. George er alinn upp í allsnægtum og til þess að njóta allsnægta án tillitssemi við afganginn af mannkyninu en Lucy fer í gegnum mjög pólitískt meðvitað uppeldi og nýtir menntun sína og gáfur til þess að reyna að bæta heiminn og aðstoða þá sem minna mega sín. Hinir meintu elskendur myndarinnar eru því fullkomnar andstæður og ganga átökin í sögunni út á það að fylgjast með hvernig þau reynast engu að síður sköpuð fyrir hvort annað og hvernig þau fara að því að mætast á miðri leið.

Þetta ferli gæti hafa orðið leiðigjarnt ef ekki væri fyrir óaðfinnanlega frammistöðu þeirra Grants og Bullock og vandvirkni í hverju rúmi hvað kvikmyndatöku og leikstjórn varðar. Hugh Grant birtist hér í kunnuglegu hlutverki sjálfsmeðvitaðs en yfirborðskennds lífsnautnamanns (sbr. Bridget Jones's Diary og About a Boy) og nær að skapa fullkomið jafnvægi milli geðfelldra og óviðfelldinna þátta í persónu sinni. Gamanleikur Grants er reyndar svo lipur að stundum fer hann á flug og nær spunakenndum hæðum. Bullock er alveg með á nótunum í þessum spuna og fær maður á tilfinninguna að sum atriðin með þeim Grant og Bullock hafi orðið til í nokkurs konar spunastemningu. Þannig eru það líka smáatriði eins og augnagotur, snarpar athugasemdir og jafnvel örfarsar í bakgrunni atburðarásarinnar sem gera myndina einkar ánægjulega. Sú staðreynd að myndin er ánægjuleg skemmtun kann einmitt að koma þeim á óvart sem, líkt og mér, hafa fengið á tilfinninguna að rómantíska gamanmyndaformið, sérstaklega í hollywoodískri birtingarmynd sinni, sé löngu stirðnað og hálffeigt, í raun með annan fótinn á grafarbakkanum en hinn í lausu lofti en hér sannast að stundum leynist líf í gömlum glæðum.

Heiða Jóhannsdóttir