About Schmidt: "Örugglega ... með bestu  og mætustu myndum stórleikarans Jacks Nicholson."
About Schmidt: "Örugglega ... með bestu og mætustu myndum stórleikarans Jacks Nicholson."
Leikstjóri: Alexander Payne. Handrit: Payne og Jim Taylor; byggt á skáldsögu Louis Begley. Kvikmyndatökustjóri: James Glennon. Tónlist: Rolfe Kent. Aðalleikendur: Jack Nicholson (Warren Schmidt), Kathy Bates (Roberta Hertzel), Hope Davis (Jeannie), Dermot Mulroney (Randall Hertzel), Howard Hesseman (Larry), Len Cariou (Ray), June Squibb. 125 mín. New Line Cinema. Bandaríkin 2002.

NICHOLSON er kominn aftur að upphafi frægðarferils síns, út á veginn. Þau eru óljós mörkin á milli dramans og kaldhæðninnar í Varðandi Schmidt og má hæglega skilgreina hana sem vegamynd. Líkt og Easy Rider sem hleypti af stokkunum glæstum ferli vinsælasta og hæfileikaríkasta leikara samtíðarinnar fyrir ótrúlega hraðfleygum aldarþriðjungi.

Varðandi Schmidt er ein merkasta tímamótamynd leikarans. Hvergi bólar á glottinu fræga eða þeirri ráðandi lífsglöðu útgeislun sem hefur öðru fremur einkennt leikstíl Nicholsons til þessa. Að þessu sinni spilar leikarinn djarfar en nokkru sinni áður og axlar undanbragðalaust sín hartnær sjötíu ár. Schmidt er sannarlega ekki einn af litríkustu persónunum sem hann hefur skapað en Nicholson er á hinn bóginn því trúverðugri sem meðalmaður á efri árum en við eigum að venjast úr þessari áttinni. Hollywood hefur löngum forðast flest það sem Varðandi Schmidt fjallar um á svo sannfærandi hátt: Aldurhnigna aðalpersónu sem á í ofanálag ósköp venjulegan bakgrunn. Öfugt við hefðina er ekkert "happ-í-endinn" til að mýkja áhrifin, á hinn bóginn blæs Schmidt gamla flest í fangið.

Í myndarbyrjun er Schmidt að kveðja ævistarfið sem aðstoðarforstjóri tryggingafyrirtækis í Omaha, er að rýma skrifstofuna fyrir unga menntamanninn sem tekur við stöðu hans. Ekki er ein báran stök því Schmidt er ekki fyrr farinn að velta fyrir sér framtíðarplönunum ásamt konu sinni en hún fellur frá. Þá á Schmidt aðeins einn fjölskyldumeðlim, einkadótturina Jeannie (Hope Davis), í Denver. Til að bæta gráu ofaná svart er hún að fara að giftast Randall (Dermot Mulroney), lítilsigldum náunga sem er ónytjungur í augum Schmidts.

Hann sest upp í húsbílinn og leggur land undir fót til að finna einhvern tilgang í samanfallna tilveruna. Að endingu knýr hann dyra hjá Jeannie til að hjálpa við undirbúninginn og kemst þá að því að fjölskylda Randalls er heldur tilkomulítil og fráhrindandi mannskapur.

Leikstjórinn Alexander Payne og Jim Taylor, hjálparhella hans við handritsgerð, eiga að baki Election, eina eftirminnilegustu mynd ársins 1999. Þar tóku þeir fyrir stjórnmálabaráttuna og skopuðust að í meinfyndinni unglingamynd um átök í kosningamálum í menntaskóla. Þeir félagar eru greinilega á góðri leið með að verða einhverjir athyglisverðustu kvikmyndargerðarmenn Bandaríkjanna nú um stundir. Kryfja rústirnar sem oftar en ekki eru veröld ellilífeyrisþegans. Eru ófeimnir við að lýsa útsýninu sem við blasir þegar mönnum er skipað að setjast í helgan stein. Það skyldi þó ekki vera að þá blasi oftar en ekki við útlitið sem maður sér með augum Schmidts? Ein heljarstór lífsblekking og æviskeiðið að renna hjá. Aldrei of seint um rassinn gripið og eins gott að reyna að gera sér sem mestan mat úr leifunum.

Schmidt rekur sig allstaðar á sannanirnar fyrir sínu innantóma og lítilsnýta lífi og til að hjálpa upp á sálarlífið rekur hann raunir sínar í bréfum til ungs Afríkudrengs, sem hann styður með mánaðarlegu fjárframlagi. Þannig geta kaupin gerst á eyrinni, menn fundið skjól þar sem síst skyldi. Sama hvaðan gott kemur.

Þrátt fyrir alvöruna og hlífðarlaust raunsæið er Varðandi Schmidt gráglettin í aðra röndina, krydduð háðskum athugasemdum um fallvaltleikann og fánýti mannlífsins. Lúðulakarnir, tengdafjölskyldan, með hinn taglprúða Randall og Robertu (Kathy Bates), móður hans, í fararbroddi, eru algjörar andstæður hins hugsandi og tregafulla Schmidts; ýkt láglífisfólk sem unir glatt við það sem inn á borð þess rekst. Þau Bates og Mulroney eru framúrskarandi trúverðug í túlkun á hyskinu og skapa lit í dökka mynd af sólsetri almenns, bandarísks launþega.

Varðandi Schmidt mun örugglega flokkast með bestu og mætustu myndum stórleikarans Jacks Nicholsons.

Sæbjörn Valdimarsson

Höf.: Sæbjörn Valdimarsson