LUIS Figo var rekinn af velli þegar Real Madrid tapaði óvænt fyrir Osasuna, 1:0, í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu í gær.

LUIS Figo var rekinn af velli þegar Real Madrid tapaði óvænt fyrir Osasuna, 1:0, í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu í gær. Figo braut illa á Francisco Punal um miðjan síðari hálfleik, fékk að líta rauða spjaldið, og þar með voru möguleikar hans manna litlir en Manfredini hafði komið heimaliðinu yfir í fyrri hálfleik. Þó munaði litlu í lokin þegar Fernando Morientes skallaði boltann uppundir þverslána á marki Osasuna.

Real Sociedad nýtti ekki tækifærið, tapaði 3:2 fyrir Real Betis á útivelli og er áfram með tveggja stiga forystu í deildinni, nú á bæði Real Madrid og Valencia. Sociedad komst í 2:1 seint í leiknum með tveimur mörkum frá Kahveci Nihat en Betis skoraði tvívegis á síðustu fjórum mínútunum. Fernandez Fernando gerði sigurmarkið úr vítaspyrnu þegar komið var framyfir venjulegan leiktíma.

Barcelona vann sinn fyrsta sigur undir stjórn Radomirs Antics, 2:0, í nágrannaslag gegn Espanyol, og komst með því í þægilegri fjarlægð frá botnsætum deildarinnar. Cocu og Xavi gerðu mörkin undir lok fyrri hálfleiks.