* REMO Nogarotto, formaður ástralska knattspyrnusambandsins, kveðst hafa átt hörð orðaskipti við Terry Venables , knattspyrnustjóra Leeds , um þátttöku Harrys Kewells í landsleik Ástralíu og Englands í síðustu viku.

* REMO Nogarotto, formaður ástralska knattspyrnusambandsins, kveðst hafa átt hörð orðaskipti við Terry Venables , knattspyrnustjóra Leeds , um þátttöku Harrys Kewells í landsleik Ástralíu og Englands í síðustu viku. Kewell skoraði eitt marka Ástrala í 3:1-sigrinum.

* NOGAROTTO segist afar óánægður með afstöðu Venables og meðferð hans á Kewell , en Venables stýrði ástralska landsliðinu á sínum tíma. Nogarotto segir að Kewell hafi til að byrja með verið bannað að taka þátt í landsleiknum, síðan hafi verið reynt að úrskurða hann meiddan, og loks hafði Venables krafist þess að Kewell léki aðeins annan hálfleikinn.

KEWELL tók sjálfur af skarið og sagði við Venables að hann myndi leika fyrir þjóð sína, sama hvað hann segði. Samkvæmt enskum fjölmiðlum andar nú afar köldu á milli þeirra.

* PETER Kenyon, framkvæmdastjóri Manchester United, segir að félagið hyggist bjóða Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóra þess, nýjan langtímasamning á næstunni. Ferguson gerði fjögurra ára samning í fyrra eftir að hann hætti við að hætta og segir Kenyon að þar sem kappinn sé heilsuhraustur og tilbúinn að vera áfram sé rétt að ganga frá samningi áður en núverandi samningur rennur út.

* ROY Keane, fyrirliði Manchester United, upplýsti um helgina að hann ætti á hættu að þurfa að fara í mjaðmaskiptaaðgerð innan fárra ára. Keane gekkst undir aðgerð á mjöðm í haust og hóf keppni á ný fyrir fáum vikum. "Læknirinn sagði við mig að það yrði gott ef ég gæti leikið knattspyrnu á ný og hann ræddi þann möguleika við mig að ég yrði að leggja skóna á hilluna," sagði Keane .

* KEANE fullyrti jafnframt að ákvörðunin um að hætta með írska landsliðinu væri sín að öllu leyti. Alex Ferguson , knattspyrnustjóri Manchester United , ætti þar engan hlut að máli en látið hefur verið að því liggja að hann hafi beitt Keane þrýstingi til að gefa út þá yfirlýsingu að hann myndi ekki klæðast landsliðsbúningi Írlands framar.

* FREDRIK Ljungberg getur ekki leikið með Arsenal gegn Ajax í meistaradeild Evrópu annað kvöld eins og vonast var eftir. Hann hefur ekki náð sér að fullu af meiðslum á hásin. Hins vegar eru Dennis Bergkamp og Gilberto Silva tilbúnir á ný en þeir léku ekki gegn Manchester United , og sama er að segja um Thierry Henry sem kom aðeins við sögu sem varamaður á Old Trafford .