ERLENDUM ríkisborgurum hefur fjölgað um nær helming á Íslandi síðasta áratug. Í lok ársins 2002 var 10.221 erlendur ríkisborgari búsettur á Íslandi eða um 3,5% landsmanna. Árið 1992 hafði 1,8% íbúa landsins erlent ríkisfang.

ERLENDUM ríkisborgurum hefur fjölgað um nær helming á Íslandi síðasta áratug. Í lok ársins 2002 var 10.221 erlendur ríkisborgari búsettur á Íslandi eða um 3,5% landsmanna. Árið 1992 hafði 1,8% íbúa landsins erlent ríkisfang. Flestir hinna erlendu ríkisborgara koma frá Póllandi, eða 1.810. 898 koma frá Danmörku, 610 frá Þýskalandi, 598 frá Filippseyjum, 567 frá Bandaríkjunum, 537 frá Júgóslavíu og 484 frá Taílandi.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands er hlutfall íbúa með erlent ríkisfang litlu lægra en í mörgum nágrannalandanna. Í Noregi sé hlutfallið 4,1% og í Danmörku 4,8%. Tekið er fram að erlendir sendiráðsstarfsmenn og starfsmenn Varnarliðsins eigi ekki lögheimili á Íslandi og komi því ekki inn í ofangreindar tölur.

Segir að alls hafi 6,6% landsmanna fæðst erlendis, eða alls 19.072 íbúar. Flestir séu fæddir í Danmörku, eða 2.472. Þar af séu 1.996 íslenskir ríkisborgarar. 1.950 hafi fæðst í Póllandi, þar af 223 íslenskir ríkisborgarar. 1.692 fæddust í Svíþjóð, þar af 1.424 með íslenskt ríkisfang. 1.529 fæddust í Bandaríkjunum, íslenskir ríkisborgarar þar af eru 1.128. Þá litu 1.260 fyrst daginn í Þýskalandi, þar af 664 með íslenskt ríkisfang. 356 þeirra 915 sem fæddust á Filippseyjum eru íslenskir ríkisborgarar og 636 af þeim 913 sem fæddust í Noregi. 819 fæddust í Bretlandi, þar af 452 íslenskir ríkisborgarar. 822 fæddust í Júgóslavíu, þar af 172 með íslenskst ríkisfang. 241 þeirra 715 sem fæddust í Taílandi er íslenskur ríkisborgari.

22.136 Íslendingar búsettir erlendis

Til samanburðar má geta þess að samkvæmt Norrænu tölfræðihandbókinni bjuggu 6.029 íslenskir ríkisborgarar í Danmörku, 4.136 í Svíþjóð, 3.930 í Noregi og 127 í Finnlandi. Alls áttu 22.136 einstaklingar fæddir á Íslandi lögheimili erlendis í lok síðasta árs, 13.414 karlar og 13.980 konur.

Hagstofan segir að í tölurnar yfir Íslendinga erlendis vanti alla sem fluttust árið 1952 eða fyrr til útlanda. Þá sé undir hælinn lagt hvort til landsins berist vitneskja um andlát Íslendinga sem sest hafa að í útlöndum, þannig að nokkurrar oftalningar gæti á Íslendingum erlendis. Þó vanti líklega í þessar tölur allstóran hluta barna sem fæddist erlendis, en hefur íslenskt ríkisfang að lögum.