"HEPPNIN var svo sannarlega með okkur að þessu sinni.

"HEPPNIN var svo sannarlega með okkur að þessu sinni. Fyrir mér var þetta vítaspyrna þegar McAteer braut á mér, en svona lagað gerist svo oft í leikjum án þess að dæmt sé á það og því átti ég alls ekki von á að dómarinn myndi dæma víti - allra síst þar sem við vorum á útivelli," sagði Heiðar Helguson, leikmaður Watford, eftir að lið hans hafði lagt Sunderland í bikarnum á laugardaginn.

"Boltinn var sendur inn á vítateiginn og McAteer bakkar inn í mig og rekur höndina í andlitið á mér. Þetta var ekki olnbogaskot, heldur rétti hann höndina út og rak hana framan í mig. Eins og ég segi tel ég þetta hafa verið réttan dóm en ég átti samt alls ekki von á að dómarinn hefði kjark til að dæma," sagði Heiðar. Þess má geta að McAteer lék nú í fyrsta sinn með Sunderland síðan í september.

Heiðar sagði heimamenn hafa verið miklu betri. "Við sköpuðum ekki neitt í leiknum, nokkrir krossar sem hefðu getað endað sem færi en gerðu það ekki. Ég átti til dæmis að ná einum slíkum en gerði ekki. Sunderland fékk hins vegar nokkur fín færi sem ekki nýttust þannig að það ríkir mikil hamingja hjá okkur með að vera komnir áfram í bikarnum.

Það eru mörg ár síðan Watford komst svona langt í keppninni, venjulega höfum við dottið út í fyrsta leik okkar í þriðju umferðinni, en núna erum við komnir mun lengra og það bjargar miklu hjá okkur. Félagið er búið að fá mikla peninga sem ekki var gert ráð fyrir og það er af hinu góða," sagði Heiðar.

Spurður um óskamótherja í næstu umferð, en dregið verður til hennar í hádeginu í dag, sagði Heiðar: "Ég óska mér fyrst og síðast að fá heimaleik. Það væri ekki leiðinlegt að fá Arsenal eða Chelsea en ég vildi samt frekar fá eitthvert lið sem við eigum raunhæfa möguleika á að komast áfram gegn. Auðvitað getur allt gerst í fótbolta, en ég sé okkur samt ekki fyrir mér slá Arsenal eða Chelsea út," sagði Heiðar.