HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur hefur hafnað kröfu Péturs Þórs Gunnarssonar um að ákæru gegn honum í umfangsmiklu málverkafölsunarmáli yrði vísað frá dómi. Aðalmeðferð hefst í málinu þriðjudaginn 1. apríl nk.

HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur hefur hafnað kröfu Péturs Þórs Gunnarssonar um að ákæru gegn honum í umfangsmiklu málverkafölsunarmáli yrði vísað frá dómi. Aðalmeðferð hefst í málinu þriðjudaginn 1. apríl nk. og er gert ráð fyrir að hún standi út þá viku og alla næstu viku á eftir.

Pétur Þór er ásamt Jónasi Freydal Þorsteinssyni ákærður fyrir skjalafals og fjársvik við sölu á rúmlega eitt hundrað málverkum hér á landi á árunum 1992-1999 en samkvæmt ákæru er þáttur Jónasar mun minni. Pétur hefur áður verið dæmdur vegna falsana á málverkum og hlaut þá sex mánaða fangelsisdóm.

Frávísunarkrafan byggðist m.a. á því að málsmeðferðin hjá lögreglu hafi ekki verið réttlát og að með henni hafi verið brotin á honum mannréttindi. Brotin sem Pétur Þór sé ákærður fyrir nú hafi flest sannanlega verið rannsökuð eða verið unnt að rannsaka áður en hann var ákærður í fyrra skiptið. Þá hafi meðferð málsins dregist óhæfilega.

Pétur Guðgeirsson, héraðsdómari, segir í úrskurðinum að málið hafi tekið langan tíma í rannsókn að það hefði bæði verið æskilegt að það hefði tekið skemmri tíma og að það hefði verið rannsakað og rekið fyrir dómi í einu lagi. Á það yrði hins vegar að líta að málið væri umfangsmikið og ekki fljótrannsakað. Dómurinn taldi að jafnvel þó að fallist yrði á öll sjónarmiðin í frávísunarkröfunni, gæti það ekki varðað því að málinu yrði vísað frá dómi. Þessi atriði kæmu hins vegar til álita þegar ákvörðun verður tekin um refsingu.