* GUÐFINNUR Kristmannsson skoraði 6 mörk fyrir Wasaiterna sem gerði jafntefli, 28:28, við Warta í sænsku 1. deildinni í handknattleik á laugardaginn.

* GUÐFINNUR Kristmannsson skoraði 6 mörk fyrir Wasaiterna sem gerði jafntefli, 28:28, við Warta í sænsku 1. deildinni í handknattleik á laugardaginn. Þetta var fyrsta stig Wasaiterna í fjórum leikjum í síðari hluta deildakeppninnar þar sem neðstu lið úrvalsdeildarinnar leika ásamt efstu liðum 1. deildar frá fyrri hlutanum.

* RÓBERT Gunnarsson skoraði tvö mörk og Tjörvi Ólafsson eitt þegar lið þeirra, Århus GF , vann góðan sigur á GOG , 32:30, í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gærkvöld. Århus GF er í fimmta sæti með 19 stig, jafnmörg og Aalborg HSH sem er í fjórða sætinu. Kolding er efst með 27 stig en GOG og Skjern koma næst með 22 stig hvort.

* MICHAL Tonar, fyrrverandi landsliðsmaður Tékklands og leikmaður með HK á árum áður, er markahæsti leikmaður þýsku 2. deildarinnar í handknattleik. Hann hefur skorað 171 mark fyrir Aue. Tonar sagði við Handball-World um helgina að ekki væru lengur not fyrir sig í tékkneska landsliðinu. Rüdiger Jurke , þjálfari Aue , er hins vegar hæstánægður og segir Tonar besta sóknarmann 2. deildar.

* GYLFI Gylfason skoraði 3 mörk fyrir Wilhelmshavener sem tapaði fyrir Gummersbach í Þýskalandi, 35:30. Kyung-Shin Yoon skoraði 13 mörk fyrir Gummersbach í leiknum.

* CHRISTIAN Schwarzer stóð undir nafni sem besti leikmaður HM í Portúgal þegar Lemgo sótti Minden heim í grannaslag. Schwarzer var illviðráðanlegur á línunni og skoraði 8 mörk í sigri Lemgo, 30:22. Gústaf Bjarnason leikur sem kunnugt er ekki meira með Minden vegna meiðsla.

* EINAR Örn Jónsson skoraði eitt mark fyrir Wallau-Massenheim sem tapaði á heimavelli, 25:28, fyrir HSV Hamburg.

*

DÖNSKU leikmennirnir voru í aðalhlutverkum hjá Flensburg sem vann Göppingen auðveldlega á útivelli, 35:26. Sören Stryger skoraði 7 mörk og þeir Lars Krogh-Jeppesen og Joachim Boldsen 6 hvor.

*

JAN Filip , tékkneski hornamaðurinn, var markahæsti leikmaður helgarinnar í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Hann skoraði 15 mörk fyrir Nordhorn sem sigraði N-Lübbecke , 38:29, í gær.

* JÓN Andri Finnsson lék ekki með Aftureldingu gegn Fram í gær vegna meiðsla. Þá var Haraldur Þorvarðarson , línumaður Fram-liðsins, heldur ekki með félögum sínum.

* BJARKI Sigurðsson , þjálfari Aftureldingar, lék ekki með lærisveinum sínum í gær. Lét hann nægja að stjórna þeim af festu frá hliðarlínunni.