Eins og oftast þegar Haukar og Stjarnan eigast við er taugaspenna mikil enda var lengi vel öll áhersla á varnarleikinn þegar liðin mættust á Ásvöllum í gærkvöldi. Það var ekki fyrr en á lokamínútunum að Haukastúlkur sigu fram úr og sigruðu 18:16 eftir að átta sóknir Stjörnustúlkna fóru forgörðum.

Haukastúlkur áttu í miklum vandræðum með að finna leiðina að marki Stjörnunnar og voru margar sóknir þeirra lítt sannfærandi, mest reynt að keyra inn í vörn gestanna og vona hið besta. Þær skoruðu fyrstu tvö mörkin með skotum utan teigs og hraðaupphlaupin brugðust. Garðbæingar byrjuðu betur með tveimur mörkum Svanhildar Þengilsdóttur og áttu góðan kafla strax eftir hlé en síðan var eins og leikmönnum þætti nóg komið með 11:9-forskot og beina brautin framundan. Þeir brenndu sig laglega á því því Haukar unnu upp forskotið, komust yfir og eru ólíklegastir allra liða til að hleypa þeim inn í leikinn á ný.

"Við vitum að okkar styrkleikur er að skora mörk en þeirra að fá ekki á sig mörk svo að við reyndum að keyra upp hraðann en þær náðu eiginlega að halda leiknum á sínum hraða," sagði Inga Fríða Tryggvadóttir, sem átti góðan leik á línunni hjá Haukum. "Þetta hafðist en var mjög erfitt. Það var ekki skorað mikið fyrir hlé en svo kom þetta hjá okkur í síðari hálfleik. Það bætti upp að Bryndís kom inn á með glæsibrag og þannig hófst þetta." Bryndís markvörður átti stórleik með þrjú varin vítaskot, Brynja Steinsen hélt spilinu oft gangandi auk þess sem Inga Fríða, Tinna og Harpa Melsteð voru ágætar.

"Við lögðum upp með að stöðva hraðaupphlaup og loka fyrir sendingar inn á línuna á Ingu Fríðu, sem þær gefa mikið á, enda fórum við þess vegna í flata vörn en við gáfum svo leikinn frá okkur eftir hlé," sagði Margrét Vilhjálmsdóttir eftir leikinn. Jelen Jovanovic markvörður stóð fyrir sínu, Svanhildur Þengilsdóttir kom sterk inn á línuna eins og Margrét. Amela Hegic átti einnig góðan leik, vinnur vel en stundum eru félagar hennar ekki samstiga.

Stefán Stefánsson skrifar

Höf.: Stefán Stefánsson