Ólafur Oddur Sigurðsson kampakátur með uppskeru helgarinnar.
Ólafur Oddur Sigurðsson kampakátur með uppskeru helgarinnar.
"GALDURINN er að nota öll brögð, ekkert bara eitt sterkt," sagði Ólafur Oddur Sigurðsson úr HSK eftir sigur í opnum flokki í þriðju umferð Meistaramóts Íslands í glímu, sem fram fór í Hagaskóla um helgina.

Ég var mikið í lágbrögðum því um tíma átti ég í meiðslum á baki en hef verið að vinna í því. Þá koma aftur mjaðmahreyfingar sem þarf í hábrögðum sem ég notaði mikið þegar ég var yngri. Mestu skiptir að vinna á góðu bragði," sagði meistarinn.

Hvorki var keppt í þyngri flokki kvenna né opnum flokki þar sem hluti keppenda var veðurtepptur en alls áttust við 13 glímumenn, 9 karlar og 4 konur. Keppnin var samkvæmt nýju fyrirkomulagi þar sem búið er að slá saman Landsglímunni og Landsflokkaglímunni en Bikarkeppnin og Íslandsglíman, þar sem keppt er um Grettisbeltið eru þó enn sjálfstæð mót. HSK vann í stigakeppni félaga með 83,5 stig en HSÞ fékk 37 og UÍA tuttugu.

Sigur Ólafs Odds skilaði honum einnig sigri á Meistaramótinu því hann vann bæði í opnum og sínum þyngdarflokki í fyrri tveimur umferðunum en á sunnudaginn varð hann að lúta í gras fyrir Lárusi Kjartanssyni félaga sínum úr HSK í +85 kg flokki. "Ég held að það hafi ekkert farið úrskeiðis hjá mér, heldur stóð Lárus sig vel. Við æfum saman en erum líka farnir að æfa með KR og keyrum um tvö hundruð kílómetra til þess. Það er erfitt en þeir sem leggja það á sig uppskera. Það er helsta vandamál okkar í glímunni, við erum með svo fámennan kjarna og þá er langt að fara á milli en það er þá gott að geta æft með góðum mönnum, sem refsa þér um leið og þú gerir mistök."

Pétur Eyþórsson úr Víkverja, sem vann í -85 kílóa flokki, hafnaði í öðru sæti opna flokksins og Lárus í þriðja en í mótaröðinni varð Lárus í öðru sæti og Jón Smári Eyþórsson úr HSÞ í þriðja. Í -85 kg flokki karla sigraði Víkverjinn Pétur en Snær Seljan Þóroddsson UÍA hafnaði í öðru og í þriðja Jón Örn Ingileifsson úr HSK.

Ólafur Oddur var að vonum ánægður með uppskeru helgarinnar. Hann hefur æft síðan 1986 og oft unnið í yngri flokkum en hyggur nú á frekari afrek. "Ég hef verið meira og minna á fullu í glímunni, sló aðeins af fyrir nokkrum árum en hef verið að koma upp síðustu árin. Ég hef á þessum árum safnað í reynslubankann og að standa efstur á verðlaunapalli í dag er virkilega góð tilfinning. Nú er að reyna vera með á næstu mótum og glíma eins og maður. Þrjár síðustu Íslandsglímur hef ég náð öðru sæti og það segir sig sjálft að nú vill maður eitthvað meira. Sigur þar yrði toppurinn á ferlinum en það eru margir sem koma til greina sem sigurvegarar," sagði kappinn.

Stefán Stefánsson skrifar

Höf.: Stefán Stefánsson