TALSVERÐ spenna ríkti meðal knattspyrnuáhugamanna í München á laugardaginn því þá var sannkallaður nágrannaslagur þegar 1860 tók á móti Bayern.

TALSVERÐ spenna ríkti meðal knattspyrnuáhugamanna í München á laugardaginn því þá var sannkallaður nágrannaslagur þegar 1860 tók á móti Bayern. Hafi heimamenn gert sér vonir um gott gengi fauk það allt út í veður og vind - en þó ekki fyrr en í síðari hálfleik.

Skemmst er frá því að segja að eftir tiltölulega jafnan fyrri hálfleik þar sem ekkert var skorað tóku gestirnir sig til eftir hlé og rúlluðu yfir heimamenn. Þar fór Mahmet Scholl fremstur í flokki, skoraði glæsilegt mark úr aukaspyrnu á 58. mínútu, annað níu mínútum síðar og fullkomnaði síðan þrennuna á 80. mínútu. Tvö mörk önnur litu dagsins ljós í nepjunni í München á laugardaginn og bæði voru gerð í mark heimamanna.

"Við gerðum allt rétt í fyrri hálfleik en síðan kom Mehmet með þetta stórglæsilega mark og það kom Bayern á fulla ferð, skrið sem við réðum hreinlega ekkert við," sagði Peter Pacault, þjálfari heimamanna, eftir leikinn.

Bæjarar eru á mikilli siglingu og forysta liðsins hélst óbreytt, átta stig, við þennan stórsigur þar sem Dortmund vann sinn leik. Ottmar Hitzfeld, þjálfari liðsins, er þó ekki sammála þeim sem segja að liðið sé óstöðvandi í deildinni. "Þrátt fyrir þennan góða sigur hefur ekkert breyst í deildinni því Dortmund vann líka og það er okkar helsti keppinautur," sagði þjálfarinn.

Bæjarar hafa ekki unnið nágranna sína svona stórt síðan árið 1980 þegar þeir unnu 6:1.

Í Dortmund tóku heimamenn á móti Þórði Guðjónssyni og félögum í Bochum og unnu 4:1, góður sigur fyrir Evrópuleikinn við Real Madrid á miðvikudaginn. "Þetta var virkilega skemmtilegt og við sýndum að við getum leikið mjög vel," sagði Torsten Frings, miðjumaður hjá Dortmund, sem skoraði tvívegis úr vítaspyrnum sem liðið fékk. Heimamenn byrjuðu þó ekki vel því gestirnir komust yfir strax á 8. mínútu. Þórður lék allan leikinn með Bochum. Heimamenn sóttu mikið í leiknum en fóru illa með færin og það nýttu gestirnir sér til fullnustu.

Sigurganga Stuttgart var stöðvuð en liðið, sem er mjög ungt, var óvænt komið í þriðja sætið í deildinni. Schalke vann 2:0 og skaust upp fyrir Stuttgart í töflunni.