[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"Starfatorg.is er í beinni samkeppni."

NÚVERANDI ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar státar sig af því að leggja áherslu á að draga úr umsvifum ríkisins og auka svigrúm einstaklinga til nýsköpunar og atvinnurekstrar. Hvert landsþing Sjálfstæðisflokksins eftir annað samþykkir ályktanir í þessa veru og nýlega samþykkti ríkisstjórnin nýja innkaupastefnu ríkisins sem endurspeglar þessar áherslur Sjálfstæðisflokksins.

Á sama tíma og ríkisstjórnin gefur út glæsilegan bækling og kynnir hina nýju innkaupastefnu sína stendur fjármálaráðuneytið fyrir "nýsköpun" í sínum rekstri í beinni samkeppni við starfandi fyrirtæki á hinum frjálsa markaði, algjörlega í blóra við innkaupastefnu ríkisstjórnarinnar svo ekki sé nú talað um stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Vorið 2002 hóf fjármálaráðuneytið rekstur starfatorg.is. Starfatorg.is er auglýsingavefur fyrir laus störf hjá ríkinu. Þar eiga allar ríkisstofnanir að auglýsa laus störf og greiða ekkert fyrir. Fjármálaráðuneytið auglýsir síðan í Morgunblaðinu fyrir háar fjárhæðir hvaða laus störf er að finna á starfatorg.is. Að sögn ráðuneytisins kostar uppsetning og rekstur auglýsingavefjarins "nánast ekkert", vegna þess að starfsmenn þess vinni störf vegna starfatorg.is í hjáverkum með öðrum störfum.

Starfatorg.is er í beinni samkeppni við auglýsingavefinn job.is sem hleypt var af stokkunum um mitt ár 1999. Viðskiptahugmynd job.is er að vefurinn sé markaðstorg atvinnumarkaðarins þar sem aðilar vinnumarkaðarins, bæði einstaklingar og atvinnurekendur, mætast. Markmið stofnanda var að ná góðri markaðsstöðu á innanlandsmarkaði og fikra sig síðan inn á erlenda markaði með stöðugri þróun þjónustunnar. Tekjur job.is koma nær eingöngu frá starfsauglýsingum fyrirtækja. Árið 2001 var unnið að endurhönnun kerfisins og þjónustunnar í ljósi reynslunnar og í ársbyrjun 2002 var nýjum vef hleypt af stokkunum. Þróunarkostnaður fyrirtækisins er orðinn mjög mikill og mun örugglega verða það áfram ef það fær svigrúm til að lifa og þróast. Hönnun vefjarins hefur ekki síst haft að leiðarljósi að auðvelda stórum fyrirtækjum, ríki og sveitarfélögum að auglýsa laus störf eins lengi og þeim hentar í öflugum miðli sem er notaður af meirihluta þeirra sem vilja fylgjast með atvinnumarkaði.

Job.is hefur þegar náð mjög góðum árangri, sérstaklega meðal einstaklinga. Í dag hafa nálægt 12.000 manns umboðsmann á job.is til að fylgjast með atvinnumarkaðinum og senda sér auglýsingar um áhugaverð störf. Undanfarnar vikur hafa allt að 8.000 einstaklingar heimsótt vefinn einu sinni eða oftar á viku. Auglýsingar á job.is hafa undantekningarlítið skilað auglýsendum fjölda umsókna frá mjög hæfu fólki.

Job.is sendi erindi til Samkeppnisstofnunar vegna þessarar óvæntu og ósanngjörnu samkeppni frá ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Kæran gekk út á það að fjármálaráðuneytið væri með aðgerðum sínum að beita ósanngjörnum viðskiptaháttum við að útiloka job.is frá stórum hluta markaðarins með því að skylda ríkisstofnanir til að auglýsa á starfatorg.is, endurgjaldslaust, þrátt fyrir umtalsverðan (a.m.k. auglýsinga)kostnað ráðuneytisins við rekstur Starfatorgsins. Niðurstaða Samkeppnisstofnunar er vægast sagt grátbrosleg. Annaðhvort hlýtur stofnunin að hafa orðið fyrir einhverskonar þrýstingi vegna þessa máls eða slæm gloppa er í samkeppnislögum, nema hvorttveggja sé. Samkeppnisstofnun kemst að þeirri niðurstöðu "að fjármálaráðuneytið hafi ekki í máli þessu haft með athöfnum sínum skaðleg áhrif á samkeppni". Röksemdafærslan er undarleg. "Upplýsingamiðlun Starfatorgs, sem innt er af hendi fjármálaráðuneytinu, fer fram án endurgjalds enda er henni ætlað að þjóna eigin þörfum ráðuneyta og ríkisstofnana." Sem sagt, vegna þess að þjónusta er ókeypis hefur hún ekki skaðleg áhrif á samkeppni og fellur ekki undir gildissvið samkeppnislaga! Okkur þætti fróðlegt að heyra álit aðila í viðskiptalífinu, fræðimanna og alþingismanna á þessum skilningi Samkeppnisstofnunar á samkeppni og aðgerðum sem skaða hana.

Það er von okkar að fjármálaráðherra og starfsmenn fjármálaráðuneytisins viðurkenni að þeim hafi yfirsést hvað markaðurinn er að gera og hætti þessum rekstri. Þetta er prinsippmál, mál sem sýnir í hnotskurn hvort Sjálfstæðisflokkurinn er samkvæmur sjálfum sér. Við skorum á sjálfstæðismenn sem eru trúir stefnu flokksins að taka þetta mál upp á komandi flokksþingi.

Eftir Guðjón Guðmundsson og Kolbein Pálsson

Guðjón er rekstrarráðgjafi og höfundur job.is og Kolbeinn er framkvæmdastjóri job.is.

Höf.: Guðjón Guðmundsson, Kolbein Pálsson