"Minnisvarði auðlindastefnu núverandi stjórnvalda verður ömurlegur."

NÝLEG úthlutun á svo kölluðum byggðakvóta sjávarútvegsráðherra ætluðum til þess að rétta hag byggða, fyrirtækja og fólks í hinum dreifðu byggðum er nú nýlokið. Vægt til orða tekið varð mörgum brugðið og enn öðrum ofbauð með þessum gerðum. Þær sýna það og sanna enn einu sinni að fiskveiðistjórnunarkerfið sem við búum við er ranglátt og handónýtt stjórnkerfi. Það er í höndum manna sem eru búnir að gera það enn verra en upphaflega var sáð til með pólitískum og heimskulegum ráðstöfunum allt frá því að farið var að stjórna fiskveiðum á þann hátt sem nú er.

Ég get nefnt dæmi þessu til sönnunar: Til Kópaskers við Öxarfjörð var úthlutað 53 þorskígildistonnum. Frá Kópaskeri eru gerðir út fjórir smábátar, þar af þrír sem stunda eingöngu árstíðabundnar grásleppuveiðar eins og lög gera ráð fyrir. Þessir þrír grásleppubátar sendu allir inn umsóknir um hlut úr "ráðherrakvótanum," þar sem þeir fá alltaf einhvern meðafla af þorski í net sín en eru kvótalausir og geta ekki samkvæmt lögum stundað þessar veiðar nema afla sér þorskkvóta. Fjórði báturinn hefur stundað handfæra- og línuveiðar frá Kópaskeri mörg undanfarin ár og landað afla sínum þar eins og fyrr greindu bátarnir, en bolfiskaflinn hefur farið til vinnslu í föstum viðskiptum til næst liggjandi fiskvinnslustöðvar G.P.G. á Húsavík. Handfæra- og línubáturinn er með mjög litlar aflaheimildir og hefur þurft að leigja til sín viðbótaraflaheimildir á liðnum árum. Það hefði því verið kærkomið fyrir útgerð þess báts, svo og fyrrnefndu bátanna, að fá einhverja úthlutun úr "ráðherrakvótanum." Allar fjórar útgerðirnar fengu stutt og laggott svar án nokkurra skýringa: Umsókn yðar var synjað.

Hver fékk svo úthlutunina? Jú, útgerð Hólmsteins Helgasonar ehf. á Raufarhöfn fékk öll 53 tonnin fyrir rækjubát sinn Viðar ÞH, sem hefur stundað rækjuveiðar í Öxarfirði undanfarin ár. Viðar ÞH er með 50% aflaheimilda rækju úr Öxarfirði (einn þriggja báta með einkaleyfi til rækjuveiða úr Öxarfirði). Rækjubátar sem veitt hafa í Öxarfirði hafa fengið úthlutað umtalsverðum kvóta í bolfiski vegna samdráttar í rækjuveiðum undanfarin ár. Það er athyglivert að nefnd útgerð H.H. ehf. og bátur fluttu lögheimili sitt frá Raufarhöfn til Kópaskers í október á s.l. ári. Þá var vitað að til þessarar úthlutunar kæmi. Tilviljunarkennt ekki satt?

Fleiri dæmi er hægt að nefna s.s. eins og frá Hrísey. Þar fékk fyrirtæki í fiskvinnslu og veiðum sem sér fjölda manns fyrir tryggri vinnu á staðnum örfá tonn á sama tíma og rækjuveiðiskip á staðnum sem landar afla sínum annars staðar fékk allt að 100 tonn í úthlutun. Er ekki orðið tímabært að þeir sem með valdið fara og hafa stjórnað og eru höfundar þeirrar hrollvekju sem hið svo kallaða fiskveiðistjórnunarkerfi er, fari að hvíla sig og leita á önnur mið með þetta kerfi sem þeir dá svo mjög og halda vart vatni eða vindi yfir. Ég hygg að þeir mættu vara sig meðal margra þjóða ef eins illa tækist til og hér hefir tekist í fjölda ára, ef þeim tækist að troða þessu stjórnkerfi einhvers staðar til framkvæmda. Víða úti í hinum stóra heimi er brugðist mun harkalegra við og refsingar við alls konar mistökum fljótvirkari og hrottalegri en hér tíðkast. Minnisvarði auðlindastefnu núverandi stjórnvalda verður ömurlegur.

Eftir Pétur Geir Helgason

Höfundur er sjómaður.