BIRGITTA Haukdal og Hallgrímur Óskarsson stóðu uppi sem sigurvegarar forkeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sem haldin var í troðfullu Háskólabíói á laugardagskvöldið.

BIRGITTA Haukdal og Hallgrímur Óskarsson stóðu uppi sem sigurvegarar forkeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sem haldin var í troðfullu Háskólabíói á laugardagskvöldið.

Sigurlagið heitir "Segðu mér allt" en í öðru sæti varð Botnleðja með lagið "Eurovísa" og í þriðja sæti varð Þórey Heiðdal með lagið "Sá þig". "Þetta var rosalega gaman og alveg ótrúlegt hvað það var mikil stemmning í salnum," segir Birgitta og bætir við: "Ég held ég hafi samt aldrei verið jafnstressuð á ævinni."

Evrópusöngvakeppnin fer fram í Riga í Lettlandi í lok maí nk. og þar mun Birgitta syngja sigurlagið. Ekki hefur verið ákveðið hvort lagið verður sungið á íslensku eða ensku í Riga. "Ég ætla að taka þessu eins og því stóra ævintýri sem þetta er: fara og gera mitt allra besta."