HEILDARVELTA Íslenskrar getspár og Íslenskra getrauna nam samtals rúmlega 2,2 milljörðum króna á árinu 2002, samkvæmt fyrirliggjandi bráðabirgðatölum.

HEILDARVELTA Íslenskrar getspár og Íslenskra getrauna nam samtals rúmlega 2,2 milljörðum króna á árinu 2002, samkvæmt fyrirliggjandi bráðabirgðatölum. Árið áður var heildarvelta þessara félaga tæplega 1,6 milljarðar króna og er veltuaukningin tæp 30% á milli ára. Hagnaður Íslenskrar getspár á síðasta ári nam um 550 milljónum króna og hagnaður Íslenskra getrauna var um 70 milljónir króna á árinu.

Bergsveinn Sampsted, framkvæmdastjóri félaganna beggja, sagði að síðasta ár hefði verið mjög gott og eitt hið stærsta í sögu þeirra. Hann sagði að helsta skýringin á veltuaukningunni væri sú að vinningarnir væru mun hærri en áður. "Við byrjum vikuna í þremur milljónum króna í lottóinu en upphæð vinningspottanna er nú að hlaðast upp mun fyrr. Þegar við svo settum metið í apríl á síðasta ári, þegar sjöfaldur fyrsti vinningur fór í rúmar 80 milljónir króna, fóru hjólin virkilega að snúast. Aukin þátttaka hækkar vinninga og fréttir af stórum vinningum kalla á enn frekari þátttöku."

Bergsveinn sagði að ekki væri hægt að merkja það sérstaklega að fólk sækti frekar í happdrætti þegar samdráttur væri í þjóðfélaginu. "Við urðum ekki varir við samdrátt í "góðærinu" þannig að ég held að það séu fyrst og fremst vinningarnir sem heilla."

40 milljónamæringar í lottóinu á síðasta ári

Auk stóra vinningsins í apríl fór fyrsti vinningur einu sinni yfir 45 milljónir króna og tvisvar yfir 30 milljónir króna. Heildarfjöldi milljónamæringa í lottóinu frá upphafi er kominn yfir 800, þar af voru þeir 40 á síðasta ári.

Áskrift að lottóinu nýtur vaxandi vinsælda og eru áskriftir nú yfir 11.000 talsins. Bergsveinn sagði að getraunir, 1X2 og Lengjan hefðu einnig sótt í sig veðrið og þá sérstaklega gagnvart enska boltanum, sem nýtur gríðarlegra vinsælda hér á landi.

Hagnaður Íslenskrar getspár skiptist milli eigenda félagsins en það er í eigu Íþróttasambands Íslands (46,67%), Öryrkjabandalags Íslands (40%) og Ungmennafélags Íslands (13,33%). Hagnaði Íslenskra getrauna er dreift í gegnum áheitakerfi til félaganna í landinu.

Heildarsala á Lotto 5/38 nam um 1.250 milljónum króna á árinu 2002, sala á Víkingalottó um 438 milljónum króna og á Jóker um 127 milljónum króna. Sala á Lengjunni nam um 244,5 milljónum króna, getraunaseðlum vegna enska boltans um 148 milljónum króna og ítalska boltans um 32 milljónum króna.