UM 160 björgunarsveitarmenn á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Suðurlandi og víðar, voru kallaðir út á 26 jeppum til að vera í viðbragðsstöðu vegna slæmrar veðurspár fyrir síðari hluta dagsins í gær, auk björgunarstarfs sem unnið var að.

UM 160 björgunarsveitarmenn á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Suðurlandi og víðar, voru kallaðir út á 26 jeppum til að vera í viðbragðsstöðu vegna slæmrar veðurspár fyrir síðari hluta dagsins í gær, auk björgunarstarfs sem unnið var að. Minna varð úr veðrinu en reiknað var með og voru sveitirnar sendar heim fyrir kvöldmat. Veðurstofan spáir áframhaldandi hvassviðri næstu daga.

Veðurstofan spáði því að enn hvassara yrði um stuttan tíma um miðjan dag. Samkvæmt upplýsingum Björns Sævars Einarssonar, veðurfræðings á Veðurstofunni, náði meginvindstrengurinn hins vegar ekki upp á suðvesturhluta landsins eins og búist hafði verið við.

Þakplötur fuku

Þótt minna hafi orðið úr veðrinu en reiknað var með urðu einhverjar skemmdir á eignum víða um land. Mest var um að þakplötur byrjuðu að fjúka af húsum og loftnet að brotna. Klæðning flettist af veginum í Breiðdal í Önundarfirði.

Flug raskaðist vegna hvassviðrisins. Innanlandsflug lá niðri þar til um kvöldmat. Þrjár þotur Flugleiða gátu ekki lent á Keflavíkurflugvelli í gærmorgun en stöldruðu við á Egilsstöðum og Akureyri þar til skilyrði bötnuðu í Keflavík.

Suðlægar áttir verða áfram, samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar, mishvassar eftir dögum og landshlutum. Í dag er spáð 15-23 metra vindi á sekúndu. Hvassast verður suðvestantil um morguninn en austanlands upp úr hádegi. Rigning eða slydda með köflum, en talsverð rigning á Suðausturlandi með morgninum.