ÞEGAR þetta er ritað eru aðeins þrír og hálfur mánuður til kosninga. Sjálfsagt er það margt sem brennur á kjósendum við kosningarnar sem fara í hönd eins og svo oft áður. Eitt er þó öðru fremur stórmál sem ekki má horfa framhjá á komandi vordögum.

ÞEGAR þetta er ritað eru aðeins þrír og hálfur mánuður til kosninga. Sjálfsagt er það margt sem brennur á kjósendum við kosningarnar sem fara í hönd eins og svo oft áður. Eitt er þó öðru fremur stórmál sem ekki má horfa framhjá á komandi vordögum. Það er sem sé hvernig formenn stjórnarflokkanna eru að klúðra stefnu þjóðarinnar í utanríkismálum. Þeir eru að gera þjóðina virkan aðila í hernaðarátökum, þó að það hafi alltaf verið fastmælum bundið að við ætluðum aldrei að taka þátt í hernaði. Nú virðist eiga að nota íslenskar farþegaflugvélar til flutninga á hermönnum og hergögnum þegar og ef herraþjóðin telur þörf á því. Það er jafnvel talið að þeir Halldór og Davíð hafi samþykki ríkisstjórnarinnar til þessa gjörnings. Lítil eru þá geð guma. Stjórnin hefur bara akkúrat ekkert umboð frá þjóðinni til að ráðskast með hennar helgasta rétt, að fá að ráða þessu sjálf. Það hefur verið alveg ótrúleg þögn um þetta mál. Fólk virðist ekki búið að átta sig á alvöru málsins. Það er kannski ekkert undarlegt þótt mörgum fallist hendur, að svona lagað skuli geta gerst að þjóðinni forspurðri. Hinn aldni stjórnmálamaður Sverrir Hermannsson hefur þó ekki hikað við að benda á þetta gerræði gegn þjóðinni og hans flokkur mun aldrei kyssa á vöndinn sem að okkur er réttur. Ég vil skora á alla stjórnarandstöðuflokka að fylgja þessu máli fast eftir, þá mun þjöðin geta hrint þessu oki af herðum sér, sem á hana hefur verið lagt, henni alveg að óvörum. Því ekki trúi ég því að einhugur sé um þessa stefnu meðal stjórnarliða. Við skulum láta ferska vinda blása um okkur á komandi vordögum. Þeir sem tala manna mest um lýðræði virða það sannarlega ekki mikið í reynd ef þeir halda að þeir geti ráðskast með helgasta rétt okkar með þessum hætti. Þetta er eitt af okkar mestu stórmálum sem ekki má klúðra. Það er sannarlega ástæða til að setja þetta mál efst á lista þess sem kosið verður um í vor. Það má kannski sjá í gegnum fingur sér við eitt og annað sem betur mætti fara, en þessi málsmeðferð hlýtur að kalla okkur til kröftugra mótmæla. Engum á að líðast að traðka á rétti okkar í þessu helgasta máli þjóðarinnar.

GUNNÞÓR GUÐMUNDSSON,

rithöfundur á Hvammstanga.

Frá Gunnþóri Guðmundssyni:

Höf.: Gunnþóri Guðmundssyni