Unnur Elísabet Gunnarsdóttir og Steve Lorenz hafa æft með Íslenska dansflokknum að undanförnu.
Unnur Elísabet Gunnarsdóttir og Steve Lorenz hafa æft með Íslenska dansflokknum að undanförnu.
Tveir dansnemar hafa æft með Íslenska dansflokknum að undanförnu. Þau sögðu Ingu Maríu Leifsdóttur frá dansnáminu og reynslu sinni með flokknum.

ÍSLENSKI dansflokkurinn frumsýnir næstkomandi föstudag þrjú ný dansverk á stóra sviði Borgarleikhússins undir heitinu "Lát hjartað ráða för". Verkin eru eftir Katrínu Hall, Itzik Galili og Ed Wubbe, en verk þeirra hafa áður verið tekin til sýninga hjá Íslenska dansflokknum við góðan orðstír. Tveir dansnemar, Unnur Elísabet Gunnarsdóttir og Steve Lorenz, hafa tekið þátt í starfsemi dansflokksins á þessu misseri og tekið þátt í undirbúningi fyrir sýninguna. Morgunblaðið hitti þetta unga fólk að máli.

Reynsla að sjá hvernig vinnan fer fram

"Það er hluti af náminu mínu í Svíþjóð að æfa með dansflokki um tíma. Ég æfði með sænskum flokki fyrir jól í tvo og hálfan mánuð, sem ferðaðist um Svíþjóð og sýndi. Mig langaði til þess að prófa hlutina hér heima líka," segir Unnur Elísabet, nemandi við Konunglega sænska ballettskólann í Stokkhólmi. Hún segist aldrei hafa sýnt með Íslenska dansflokknum, enda er hún einungis átján ára gömul, en hefur áður tekið æfingatíma með flokknum þegar hún hefur verið heima í fríum. "Þessi dvöl mín hér er mikilvæg fyrir mig, þar sem hún gefur mér tækifæri til að kynnast dönsurunum í flokknum og kynna mig sem dansara hér heima. Og svo er ómetanleg reynsla að vinna með flokk og sjá hvernig vinnan fer fram."

Hún segist hafa verið heppin með að fá inni hjá Íslenska dansflokknum og að hafa fengið að æfa með flokknum þá tvo mánuði sem hún hefur verið hér. "Margir skólafélagar mínir í Svíþjóð fá bara að vera eina til tvær vikur með dansflokki, og sumir fá jafnvel ekki að æfa með, bara sitja og horfa á. Hérna fæ ég að vera með og læra allt sem hinir eru líka að gera, eins og verkið hans Ed Wubbe núna," segir hún, en nýtt verk eftir hollenska danshöfundinn Ed Wubbe er eitt verkanna á sýningunni "Lát hjartað ráða för".

Unnur Elísabet stefnir á að útskrifast frá Konunglega sænska ballettskólanum í vor, en hún hefur verið þar við nám síðan hún var fimmtán ára gömul, og hafa þónokkrir íslenskir dansarar sótt þennan skóla gegnum tíðina. Hún mun ekki sýna með Íslenska dansflokknum á næstu sýningu þeirra, þar sem hún er á leið í stóra sólódanskeppni í Svíþjóð. Í skólanum þar úti er hún bæði á klassískri braut og "modern"-braut. "Mér finnst mikilvægt að hafa bakgrunn í báðum, en stefni frekar á að fara út í "modern" dans í framtíðinni, eða þá neo-klassískan ballett. Keppnin er í "modern" dansi og ég hef fengið tvo danshöfunda sem starfa hér á Íslandi til að semja fyrir mig dansa."

Unnur Elísabet segir ekki margt hafa komið sér á óvart í starfinu hér heima, en það hafi verið mjög gefandi og skemmtilegt. Aðspurð hvort munur sé á Íslenska dansflokknum og sænska flokknum sem hún vann með, segir hún stærð flokksins vera það helsta - hér séu miklu færri dansarar. "En hingað til Íslands koma líka mjög góðir danshöfundar, svo gæðin eru ekkert minni," segir hún.

Ætlaði að stunda karate

Hinn 21 árs gamli Þjóðverji, Steve Lorenz, stundar nám við dansakademíuna í Rotterdam í Hollandi en æfir um þessar mundir með Íslenska dansflokknum. Líkt og með Unni Elísabetu er það hluti af námi hans þar að starfa ákveðið tímabil með viðurkenndum dansflokki. "Það hefur komist á samstarf mili skólans míns og Íslenska dansflokksins fyrir tilstilli Katrínar Hall, listdansstjóra flokksins. Eitt sinn þegar hún fylgdist með sýningu skólans sá hún mig dansa og nefndi slíkt samstarf við kennarann minn. Þegar hann spurði hvort ég væri tilbúinn að fara til Íslands, sló ég að sjálfsögðu til, enda gott tækifæri. Svo hér er ég," segir Steve. Hann hefur verið hér síðan í desemberbyrjun og æft með flokknum, og tekur m.a. þátt í uppfærslunni á söngleiknum Sól og mána í Borgarleikhúsinu. Hann mun taka þátt í hinnu nýju sýningu dansflokksins sem frumsýnd verður á föstudag og ennfremur fara með dansflokknum á Al Bustan-danshátíðina í Beirút í Líbanon í byrjun mars.

Hann segist ekki hafa þekkt til Íslenska dansflokksins áður, en bendir á að hann sé líka nýr í faginu. "Ég hóf dansnám fyrir aðeins þremur árum. Það kom þannig til að ég hafði æft karate frá ellefu ára aldri og þurfti að taka danstíma þegar ég var kominn í karatekennaranám. Í byrjun leist mér ekkert á blikuna, en fór að hafa gaman af þessu. Mexíkanskur kennari sem kenndi mér tók eftir mér og stakk upp á því við mig að ég gæfi dansinum frekari tækifæri, sem ég gerði og hef ekki séð eftir síðan. Ég komst inn í skólann í Rotterdam og hef verið þar undanfarin tvö ár."

Steve segir mikinn mun á því að sækja tíma í skólanum og æfa með dansflokknum. "Hérna mætum við í balletttíma á morgnana eins og í skólanum, en þó að þar sé leiðbeinandi er enginn kennari þannig séð - hér ber maður ábyrgð á sjálfum sér. Síðan er sama stykkið æft allan daginn. Þetta er gaman, en maður þarf að venjast því að vera sinn eigin herra og bíða ekki endilega eftir því að aðrir segi sér til. Maður þarf að vinna fyrir sjálfum sér og fyrir sjálfan sig," segir Steve að lokum.

ingamaria@mbl.is

Höf.: ingamaria@mbl.is