Johann Sebastian Bach: Partíta nr. 2 í d-moll BWV 1004.

Johann Sebastian Bach: Partíta nr. 2 í d-moll BWV 1004. Kóralar: Christ lag in Todesbanden, Den Tod niemand zwingen kunnt, Wo soll ich fliehen hin, Dein Will gescheh', Befiehl du deine Wege, Jesu meine Freude, Auf meinen lieben Gott, Jesu deine Passion, In meines Herzens Grunde, Nun lob', mein Seel', den Herren. Chacona fyrir einleiksfiðlu og fjórar söngraddir um stef eftir J.S. Bach í útsetningu Helga Thoene. Hljóðfæraleikur: Christoph Poppen (barokkfiðla). Söngur: The Hilliard Ensemble. Heildartími: 61'30. Útgefandi: ECM Records. Dreifing: 12 tónar.

Á DÖGUNUM barst mér í hendur geisladiskurinn Morimur. Uppruninn fer ekki á milli mála, listrænar umbúðir í gráum og svörtum tónum eru einkenni ECM-útgáfunnar. Grámuskulegt yfirbragðið gæti fælt væntanlega kaupendur frá en þeir sem kynnst hafa hljóðritunum þessa fyrirtækis vita að þær eru nánast loforð um vandaðan flutning og framsækna útgáfustefnu.

Og hér ætti enginn væntanlegur kaupandi að verða fyrir vonbrigðum.

Á diskinum Morimur vinna þeir félagarnir Christoph Poppen fiðluleikari og söngvararnir í The Hilliard Ensemble með þekktasta verk Bachs fyrir einleiksfiðlu, Partítuna í d-moll BWV 1004, sem þeir flytja í bland við kórala tónskáldsins. Uppröðun verkanna og samsetning er byggð á hugmyndum og rannsóknum Helgu Thoene prófessors við Tónlistarháskólann í Düsseldorf. Hún hefur fært sönnur á það að í Partítunni BWV 1004, og reyndar ýmsum öðrum tónverkum J.S. Bachs, megi finna ótal hulin skilaboð tónskáldsins um dauðann. Í afar ítarlegum og fróðlegum meðfylgjandi bæklingi er gerð grein fyrir þessum hugmyndum prófessorsins og einnig fjallað um önnur tónskáld sem hafa leikið sér að slíkum "gátumog tilvísunum um dauðann í tónverkum sínum (t.d. Berg, Mendelssohn, Hindemith, Zimmermann). Helga Thoene sýnir fram á að Chaconan risavaxna í ofangreindri d-moll-partítu sé í raun minnisvarði um fyrri eiginkonu Bachs, Maríu Barböru (1684-1720). Bach hafði dvalist í Karlsbad í nokkra mánuði hjá Leopold prinsi af Anhalt-Köthen og þegar hann sneri heim aftur var María Barbara öll og útförin hafði farið fram. Ekki þarf mikið hugmyndaflug til að ímynda sér hvílíkt áfall þetta hefur verið. Í ritgerð sinni sýnir Helga Thoene fram á skyldleika Chaconunnar við ýmsa kórala Bachs og með talnaútreikningum sannar hún að þeir myndi grafskrift Maríu Barböru. Máli sínu enn til sönnunar hefur hún "umsamið" Chaconuna þannig að fiðlulínan heldur sér óbreytt en fjórradda sönghópurinn syngur tilvitnanir úr kórölunum.

"Nýtt" og afar áhrifaríkt tónverk hefur orðið til. Ótrúlegt en satt. Og það virkar.

Geislaplatan Morimur hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda um allan heim enda er flutningur The Hilliard Ensemble og fiðluleikarans Christophs Poppen sérlega áhrifaríkur og hljóðritunin framúrskarandi.

Morimur er mjög áhugaverður diskur sem ekki má vanta í plötusafn aðdáenda hins aldna meistara meistaranna.

Valdemar Pálsson