Rúnar Sigtryggsson
Rúnar Sigtryggsson
RÚNAR Sigtryggsson og félagar í Ciudad Real unnu góðan útisigur á Portland, 26:22, í toppslag í spænska handknattleiknum í gær.

RÚNAR Sigtryggsson og félagar í Ciudad Real unnu góðan útisigur á Portland, 26:22, í toppslag í spænska handknattleiknum í gær. Liðin voru jöfn að stigum en Ciudad Real er nú eitt í öðru sætinu með 30 stig eftir 17 umferðir, stigi á eftir Barcelona sem vann Teucro, 33:25. Portland er með 28 stig og Ademar Leon 27.

Rúnar var ekki á meðal markaskorara Ciudad Real en flest marka liðsins gerði spænski landsliðsmaðurinn Alberto Entrerríos, sjö talsins. Ciudad náði sjö marka forskoti í byrjun, 9:2, og Portland tókst aldrei að jafna metin.

Heiðmar Felixson skoraði 2 mörk fyrir Bidasoa sem gerði jafntefli við Baracaldo á heimavelli, 27:27. Heiðmar kom Bidasoa yfir mínútu fyrir leikslok en gestirnir náðu að jafna. Bidasona er í 11. sæti af 16 liðum í 1. deildinni með 12 stig.