Steingrímur J. Sigfússon treystir sér ekki til að fagna hugmyndum Davíðs Oddssonar um skattalækkanir. Að minnsta kosti ekki fullum rómi. Hann virðist skipta efnahagslífinu í tvennt í málflutningi sínum.

Steingrímur J. Sigfússon treystir sér ekki til að fagna hugmyndum Davíðs Oddssonar um skattalækkanir. Að minnsta kosti ekki fullum rómi. Hann virðist skipta efnahagslífinu í tvennt í málflutningi sínum. Annars vegar er "lágtekjufólkið", hins vegar fyrirtækin, eða "rótgróin gróðafyrirtæki".

Í frétt Morgunblaðsins, þar sem formaður Vinstri grænna var spurður álits á hugmyndum forsætisráðherra, segir að Vinstri grænir vilji hlífa lágtekjufólki við óhóflegri skattlagningu en ekki lækka skatta enn frekar á "rótgróin gróðafyrirtæki". "Ég vil minna á að þessi ríkisstjórn hefur verið dugleg við að lækka skatta en því miður fyrst og fremst hjá þeim sem betur mega sín," er haft eftir Steingrími í fréttinni.

Steingrímur segir að skattar hafi verið lækkaðir hjá "hátekjufólki, stóreignafólki og gróðafyrirtækjum". Á sama tíma hafi skattbyrði láglaunafólks þyngst vegna þess að skattleysismörk hafi ekki fylgt verðlagsþróun.

Vissulega er það rétt hjá Steingrími, að góð og gild rök eru fyrir skattalækkunum á einstaklinga, ekki síður en fyrirtæki. En er það svo, að hagsmunir þessara tveggja hópa þjóðfélagsins fari lítt eða alls ekki saman? Gagnast lækkun fyrirtækjaskatta ekki almenningi í landinu?

Skattalækkanir á fyrirtæki auka grósku í atvinnulífinu. Atvinnurekstur verður lífvænlegri, hagnaður meiri og hvati til að framleiða eykst. Lægri skattar gera fyrirtækjum kleift að borga hærri laun en ella. Í raun má segja að hagur fyrirtækja og almennings sé að langmestu leyti hinn sami, enda er það grundvallaratriði í rekstri fyrirtækja að greiða starfsmönnum góð laun.

Mismunun fyrirtækja og einstaklinga í skattamálum er hins vegar óeðlileg, eins og Steingrímur bendir réttilega á. Auðvitað ætti ekki að borga sig að stofna hlutafélag um rekstur, sem einstaklingur gæti allt eins sinnt sjálfur. Slíkt skrifræðisfyrirkomulag er óhagkvæmt.

Þess vegna ber að fagna yfirlýsingum forsætisráðherra, um að stefna beri að lækkun skatta á almenning í landinu. Ætti Steingrímur ekki líka að taka undir tillögur Davíðs?