BAYERN München er byrjað að bera víurnar í 21 árs gamlan sóknarmann nágrannaliðsins 1860 München, Benjamin Lauth, eða "Benny Bomber" eins og hann er kallaður.

BAYERN München er byrjað að bera víurnar í 21 árs gamlan sóknarmann nágrannaliðsins 1860 München, Benjamin Lauth, eða "Benny Bomber" eins og hann er kallaður.

Lauth er samningsbundinn 1860 fram til ársins 2006 en það kemur þó ekki í veg fyrir að stórliðið í München, Bayern, hefur sýnt pilti mikinn áhuga. "Lauth hefur alla hæfileika til að verða frábær leikmaður, leikmaður sem getur unnið leiki upp á sitt einsdæmi," segir Ottmar Hitzfeld þjálfari Bayern sem segir ljóst að slíkir leikmenn hljóti að vilja vera með stórliðum og komast þannig í Meistaradeildina.

Brasilíumaðurinn Giovane Elber er helsti sóknarmaður Bayern en talið er að hann verði ekki hjá félaginu lengur en til næsta árs og er Lauth ætlað að leysa hann af hólmi. "Hann er greinilega rétti maðurinn fyrir Bayern. Hann hefur ótrúlega næmt auga fyrir mörkum," segir Elber um væntanlega arftaka sinn.

Lauth hefur gert tíu mörk í deildinni, mörg hver "með stórkostlegum hætti, bakfallsspyrnum eða með því að prjóna sig svoleiðis framhjá sterkustu varnarmönnum Þýskalands að þeir liggja eins og hráviði eftir," eins og segir í frétt AP um pilt.