FJÖLMIÐLAR í arabaríkjunum birtu í gær ný ummæli sem höfð eru eftir Osama bin Laden, leiðtoga al-Qaeda-samtakanna og sögð vera á 53 mínútna hljóðupptöku sem að hluta var skýrt frá þegar á fimmtudag. Bin Laden segir þar að George W.

FJÖLMIÐLAR í arabaríkjunum birtu í gær ný ummæli sem höfð eru eftir Osama bin Laden, leiðtoga al-Qaeda-samtakanna og sögð vera á 53 mínútna hljóðupptöku sem að hluta var skýrt frá þegar á fimmtudag. Bin Laden segir þar að George W. Bush Bandaríkjaforseti sé "heimskur" og hægt sé að sigra Bandaríkjamenn með því að ráðast á herstöðvar þeirra í öðrum löndum. Þá muni þeir gefast upp.

Upptakan er mjög óskýr en hún hefur verið sett á Netið og blaðið al-Hayat í Kaíró birti ummælin í gær. Bin Laden segir það ætlun Bush að láta Ísrael leggja undir sig stór svæði í Írak og Egyptalandi, einnig Sýrland, Líbanon, Jórdaníu og alla Palestínu "auk hluta af landi heilögu moskanna [Sádi-Arabíu]".

Hann gagnrýnir hart leiðtoga Sádi-Arabíu og fleiri arabaríkja fyrir meintan undirlægjuhátt gagnvart Bush.

Kaíró. AP.