BRESKA dagblaðið The Observer sagði í gær að Bandaríkjamenn ætluðu að refsa Þjóðverjum fyrir baráttu þeirra gegn stefnu George W. Bush forseta í Íraksmálunum. Þeir hygðust kalla burt alla bandaríska hermenn, um 71.

BRESKA dagblaðið The Observer sagði í gær að Bandaríkjamenn ætluðu að refsa Þjóðverjum fyrir baráttu þeirra gegn stefnu George W. Bush forseta í Íraksmálunum. Þeir hygðust kalla burt alla bandaríska hermenn, um 71.000 manns, sem nú hafa bækistöðvar í Þýskalandi.

Blaðið hefur eftir heimildarmanni sínum í Washington að Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hafi rætt þessi mál á fundi háttsettra manna í varnarmálaráðuneytinu, Pentagon, í liðinni viku.

Rumsfeld vill að sögn The Observer að bandaríska herliðið verði flutt til grannlanda eins og Póllands og Tékklands eða annarra Evrópulanda sem hafa stutt stefnu Bandaríkjastjórnar í deilunni við Íraka.

Nýlega skýrði bandarískur yfirmaður herafla Atlantshafsbandalagsins frá því að ætlunin væri að fækka verulega bandarískum hermönnum í Þýskalandi og væri þetta liður í því að gera heraflann sveigjanlegri.