Bryndís Bjarnarson
Bryndís Bjarnarson
STJÓRNVÖLD hafa ákveðið að setja aukna fjármuni í vegaframkvæmdir til þess að bregðast við atvinnuástandinu.

STJÓRNVÖLD hafa ákveðið að setja aukna fjármuni í vegaframkvæmdir til þess að bregðast við atvinnuástandinu. Af því tilefni hefur Framsóknarfélag Mosfellsbæjar skorað á stjórnvöld að hraða framkvæmdum við tvöföldun Vesturlandsvegar frá Víkurvegi að Skarhólabraut. Vesturlandsvegur hefur þjónað landsmönnum í tæp 30 ár og hefur gert sitt gagn en nú er svo komið að það er löngu tímabært að tvöfalda hann. Slysahætta er mjög mikil eins og dæmin sanna; á þessari leið verða flest slys og mjög hættuleg. Þegar alvarleg slys verða lokast vegurinn og eina leiðin sem er fær er Hafravatnsvegur. Það er ekki langt síðan síðasta alvarlega slys varð á Vesturlandsvegi, þá lokaðist hann og umferð var beint um Hafravatnsleið. Var mikil hálka á þeirri leið og urðu þar árekstrar, en sem betur fer ekki alvarlegir. Það hefði getað skapast mjög alvarlegt ástand þar því umferð var mjög mikil og farið að rökkva. Þetta leiðir hugann að því að þessi leið er sú eina út úr höfuðborginni í norður og því mikið atriði að hún sé greiðfær. Því vil ég árétta áskorun stjórnar Framsóknarfélags Mosfellsbæjar til samgönguyfirvalda:

Stjórn Famsóknarfélags Mosfellsbæjar skorar á samgönguyfirvöld að hraða tvöföldun Vesturlandsvegar frá Víkurvegi að Skarhólabraut. Á Vesturlandsvegi er ein hæsta slysatíðni á landinu. Nú þegar yfirvöld hafa ákveðið að leggja til aukið fé til að hraða vegaframkvæmdum ríkisins teljum við nauðsynlegt að setja Vesturlandsveginn í forgang, sem er mikið öryggisatriði fyrir íbúa Mosfellsbæjar.

BRYNDÍS BJARNARSON,

bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Mosfellsbæ.

Frá Bryndísi Bjarnarson:

Höf.: Bryndísi Bjarnarson