STJÓRN Röskvu hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun um atvinnumál ungs háskólamenntaðs fólks: "Röskva, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, lýsir yfir þungum áhyggjum vegna aukins atvinnuleysis meðal háskólamenntaðs fólks.

STJÓRN Röskvu hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun um atvinnumál ungs háskólamenntaðs fólks:

"Röskva, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, lýsir yfir þungum áhyggjum vegna aukins atvinnuleysis meðal háskólamenntaðs fólks. Aldrei hafa fleiri háskólamenntaðir verið á atvinnuleysisskrá og hefur orðið gríðarleg fjölgun á síðustu vikum. Samkvæmt nýjustu tölum frá Vinnumálastofnun eru um 450 háskólamenntaðir á atvinnuleysisskrá en gera má ráð fyrir að mun fleiri séu án atvinnu þótt þeir séu ekki á skrá.

Í vikunni ákváðu stjórnvöld að veita rúma 6 milljarða inn í atvinnulífið. Slíkar aðgerðir eru að sjálfsögðu af hinu góða en Röskva vill samt sem áður taka undir með Reykjarvíkurakademíunni um að ríkisstjórn Íslands virðist með þessum aðgerðum ekki taka tillit til ungs háskólamenntaðs fólks. Fjármunum er beint aðallega til verklegra framkvæmda um allt land. Röskva vill beina þeim tilmælum til stjórnvalda að nota hluta þessara fjármuna til atvinnuuppbyggingar fyrir háskólamenntað fólk en í menntun þeirra liggur mikill auður sem mikilvægt er að virkja."