DÓMARARNIR voru í aðalhlutverkum í leik Hauka og Stjörnunnar á Ásvöllum í gærkvöldi. Með tilviljunarkenndum brottrekstrum og ósamræmi í störfum sínum hvarf einbeiting leikmanna beggja liða jafnt sem stuðningsmanna út í veður og vind svo að botninn var dottinn úr leiknum áður en blásið var til leikhlés. Vængbrotið lið Stjörnunnar mátti síður við því en skrápur þrautreyndra Hauka reyndist nægilega þykkur til að sigra 37:26.

Hafnfirðingar byrjuðu á að reyna að keyra upp hraðann og gerðu tvö mörk á fyrstu mínútunum en fylgdu því ekki eftir og Garðbæingum, sem voru einbeittir í byrjun, tókst gott betur en að standa í þeim og náðu 10:9-forystu eftir 19 mínútur. Þá var gestunum tvívegis vísað út af fyrir litlar ef einhverjar sakir og það virtist slá þá nokkuð út af laginu. Það er nokkuð sem Haukar gerþekkja og á meðan Garðbæingar voru að jafna sig komu sex hafnfirsk mörk í röð. Hlutskipti Stjörnumanna var því að reyna að vinna upp slíkt forskot og þeir reyndu til að byrja með en réttan baráttuanda skorti. Snemma í síðari hálfleik leystist leikurinn síðan endanlega upp og mildi að menn fóru ekki að brjóta hömlulaust af sér því dómarar héldu sínu striki og menn vissu oft ekki hverju þeir áttu von á þegar blásið var í flautuna.

Haukar sýndu góða seiglu, vissu sem var að með þolinmæði og með því að halda uppi hröðum leik myndu mótherjar þeirra fyrr eða síðar misstíga sig. Það gerðist og Garðbæingum var um leið refsað rækilega með nokkrum mörkum í röð, og Haukar juku forskot sitt jafnt og þétt. Pétur Magnússon sýndi oft skemmtileg tilþrif og góðan samleik með línumanninum Vigni Svavarssyni. Jón Karl Björnsson stal þó senunni þegar hann kom inn á eftir hlé og skoraði átta mörk. "Við ætluðum að keyra upp hraðann eins og gerðist eftir hlé og reyna að rúlla þannig yfir þá. Við fengum mikið af hraðaupphlaupum og þá fer svona," sagði Jón Karl.

Stjarnan byrjaði vel en náði ekki að halda út. "Við byrjum vel með góða einbeitingu og náðum forystu en þá gerðist það sem mátti ekki gerast," sagði Sigurður Gunnarsson, þjálfari Stjörnunnar. "Þegar við hættum að spila agað er okkur refsað og það getum við ekki leyft okkur. Við ætluðum að stöðva Pauzuolis, spila agaðan sóknarleik og stilla vel upp í leikkerfin. Það gekk vel og vörnin var í lagi en þá skoruðu þeir úr hraðaupphlaupum, sem við ætluðum að forðast. Svo þegar við fórum illa með sóknir okkar, þar á meðal hraðaupphlaup, og þeir komust í sókn til að skora náðu þeir umtalsverðri forystu og slepptu ekki takinu."

Framan af voru Þórólfur Nielsen og Agnar Agnarsson lykilmenn í sókn Stjörnunnar auk þess sem Árni Þorvarðarson varði vel en David Kekelia kom til eftir hlé. Vilhjálmur Halldórsson stóð vörnina en tók þátt í sókninni í lokin og skoraði fjögur mörk.

Stefán Stefánsson skrifar

Höf.: Stefán Stefánsson